Í gifsi upp í nára

Harpa Guðrún slasast illa í loka stökkinu.
Harpa Guðrún slasast illa í loka stökkinu. Eva Björk Ægisdóttir

„Ég er bara komin í gifs upp í nára. Hnéð fór úr lið en það er búið að kippa því aftur í liðinn,“ segir fimleikakonan Harpa Guðrún Hreinsdóttir. Harpa var í blönduðu liði Íslands sem lenti í fimmta sæti á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fram fór í Laugardalshöll um helgina.

Harpa slasaðist í síðasta stökki sínu á dýnu sem jafnframt var síðasta keppnisgrein liðsins. Hún segist ekki hafa náð að klára síðasta snúninginn og að hún hafi því verið að snúa í lendingunni sem leiddi til þess að hnéskelin kipptist úr lið. Hörpu var kippt aftur í liðinn á staðnum og var hún borin út á sjúkrabörum.

„Þetta leit ekkert rosalega vel út. Það er skrítið að sjá hnéð ekki á sínum stað, svolítið óhugnanlegt, segir Harpa um meiðslin en ljósmyndari mbl.is náði myndum af slysinu þar sem glögglega má greina sársaukann í andliti Hörpu.

Harpa segir lítið ljóst um hversu alvarleg meiðslin eru þar til eftir mánuð, en þá fer hún í myndatöku á hné sem leiðir í ljós hvort liðbönd eða aðrir hlutar hnésins hafi skaðast. 

Hnéskelin fór úr lið hjá Hörpu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert