Nutu hverrar mínútu

Íslenska kvennaliðið þakkar fyrir stuðninginn.
Íslenska kvennaliðið þakkar fyrir stuðninginn. Eva Björk Ægisdóttir

„Það eru engin vonbrigði í hópnum þrátt fyrir að pressan hafi verið mikil, við náðum að halda einbeitingu í allri stemningunni og reyndum að nýta okkur orkuna úr stúkunni. Mér fannst við höndla það allt saman mjög vel og þær eru mjög ánægðar með verkefnið í heild.“ sagði Bjarni Gíslason, einn þjálfara íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum, í samtali við Morgunblaðið eftir keppni í úrslitum á laugardag, en þá lauk sannkallaðri fimleikaveislu í Laugardalnum, sjálfu Evrópumótinu í hópfimleikum.

Íslenska kvennaliðið mætti til leiks með tvöfaldan Evrópumeistaratitil og mikla pressu á bakinu en náði ekki að fullkomna þrennuna á heimavelli. Liðið varð að gera sér silfrið að góðu, en frammistaða liðsins var engu að síður frábær. Það hlaut alls 59,466 stig og var einungis 0,684 stigum á eftir Svíþjóð sem varð Evrópumeistari. Þrátt fyrir ákveðin vonbrigði var hugarfarið til fyrirmyndar hjá stelpunum sem töluðu um að liðið hefði átt frábæran dag, en Svíarnir einfaldlega líka.

„Það er ekki hægt að kvarta yfir frammistöðunni og við erum mjög ánægð með það hvernig þetta fór, mjög svo. Við gengum inn í verkefnið vitandi hvað var undir og hvaða kröfur voru gerðar til liðsins. Við þjálfararnir fundum spennuna magnast eftir því sem á leið og einbeittum okkur að því að höndla þær aðstæður sem best. Mér finnst við hafa gert það mjög vel,“ sagði Bjarni, sem sagðist aldrei hafa séð viðlíka stemningu hér á landi og í úrslitunum á laugardag.

Sjá ítarlega umfjöllun um Evrópumótið í hópfimleikum í Morgunblaðinu í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert