Þróttur vann eina hrinu af HK

frá keppni í blaki.
frá keppni í blaki. Þorvaldur Örn Kristmundsson

HK vann Þrótt með þremur hrinum gegn einni í Mizuno-deild kvenna í blaki í Laugardalshöll í gærkvöldi. HK byrjaði leikinn af miklum krafti og vann tvær fyrstu hrinurnar nokkuð auðveldlega, 25:12 og 25:10, áður en leikmenn Þróttar náðu sér á strik. 

Leikmenn Þróttar voru mikið sterkari í þriðju hrinu og unnu hana örugglega, 25:13.  Í fjórðu hrinu fór leikurinn í sama far og í fyrstu og annarri hrinu. Leikmenn HK léku við hvern sinn fingur og unnu 25:14, og þar með leikinn, 3:1, í hrinum talið.

Stigahæstar í liði HK voru Herborg Vera Leifsdóttir með 16 stig og Ingibjörg Gunnarsdóttir með 9.

Hjá Þrótti Reykjavík voru stigahæstar Sunna Þrastardóttir með 11 stig og Brynja Guðjónsdóttir með 8. 

HK er á toppi deildarinnar með 15 stig eftir 5 leiki. Afturelding hefur fullt hús stiga með 12 stig eftir 4 leiki í 2. sæti en liðið leikur tvo leiki gegn KA um komandi helgi að Varmá í Mosfellsbæ. Fyrri leikur liðanna verður kl. 20 á föstudagskvöld og sá síðari kl. 13.15 á laugardag. Þá verður einnig leiki í Neskaupstað í Mizunodeild kvenna um helgina. Stjarnan heimsækir Þrótt Nes heim og leika liðin á föstudag kl. 20.00 og laugardag kl. 12.00.

Leikið verður í Mizunodeild karla einnig um helgina. Afturelding fær KA í heimsókn á föstudagskvöld kl. 18.30 að Varmá og í Neskaupstað leika Þróttur Nes og HK á laugardag kl. 14.00. Fylkir fær svo KA í heimsókn á laugardag kl. 17.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert