Lilja Lind og Freyja Mist Norðurlandameistarar

Ingi Gunnar Ólafsson aðstoðarþjálfari, Freyja Mist Ólafsdóttir, Lilja Lind Helgadóttir, …
Ingi Gunnar Ólafsson aðstoðarþjálfari, Freyja Mist Ólafsdóttir, Lilja Lind Helgadóttir, Árni Björn Kristjánsson landsliðsþjálfari, Auður Ása Maríasdóttir, Sólveig Sigurðardóttir og Lárus Páll Pálsson formaður Lyftingasambands Íslands. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands

Lilja Lind Helgadóttir varð í dag Norðurlandameistari 20 ára og yngri í ólympískum lyftingum annað árið í röð og sló jafnframt Norðurlandamet í jafnhendingu þegar hún lyfti 103 kg upp fyrir haus. Hún á þar með þyngstu lyftu í jafnhendingu af öllum stelpum 20 ára og yngri á Norðurlöndunum.

Lilja tók 80kg í snörun og reyndi við 85 kg sem hefði verið Norðurlandamet í snörun en það gekk ekki upp í þetta skiptið. Hún endaði með 183 kg samanlagt. 

Freyja Mist Ólafsdóttir varð sömuleiðis Norðurlandameistari í -75kg flokki. Hún lyfti 65 kg í snörun og 80 kg í jafnhendingu. Í sama flokki varð Auður Ása Maríasdóttir í öðru sæti, hún lyfti 63kg í snörun og 75kg í jafnhendingu. 

Sólveig Sigurðardóttir var í gífurlega erfiðum riðli en hún lenti í þriðja sæti í -63 kg flokki. Hún lyfti 63 kg í snörun og 75 kg í jafnhendingu. Hún reyndi við 80 kg í jafnhendingu til að tryggja sér annað sætið og var grátlega nálægt því. 

Á morgun keppa svo íslensku strákarnir en fyrir hönd Íslands keppa Emil Ragnar Ægisson, Guðmundur Högni Hilmarsson, Högni Hjálmtýr Kristjánsson, Hilmar Örn Jónsson og Stefán Velemir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert