Vala Rún setti met á svellinu

Vala Rún B. Magnúsdóttir átti frábæran dag.
Vala Rún B. Magnúsdóttir átti frábæran dag. Ljósmynd/Helga Hjaltadóttir

Mikil barátta var meðal bestu skautara landsins á fyrri degi bikarmótsins í listhlaupi á skautum sem hófst í Laugardalnum í dag.

Fyrsti keppandi í unglingaflokki A, Agnes Dís Brynjarsdóttir frá SB, setti tóninn með því að skila nánast hnökralausum dansi. Pressan var því mikil á næstu stúlkur. Kristín Valdís Örnólfsdóttir frá SR, sem er að koma upp úr stúlknaflokki A, skilaði góðum dansi og Þuríður Björg Björgvinsdóttir frá SB, sem sigraði haustmótið örugglega, sýndi frábæran dans en gerði dýrkeypt mistök í stökkunum.

Vala Rún B. Magnúsdóttir frá SR, bikarmeistari 2013, stal þó senunni í dag þegar hún braut múrinn í tækniskori og heildarskori fyrir stutta dansinn og fékk 21.14 í tæknieinkunn og 37.08 í heildareinkunn sem er hæsta skor í unglingaflokki A til þessa. Vala Rún, kom því sterk inn á sínu fyrsta móti á þessu tímabili en hún var meidd á Haustmóti Skautasambandsins sem fram fór fyrir mánuði síðan.

Staðan eftir fyrri keppnisdag er því þannig að Vala Rún er í fyrsta sæti með 37.08 stig, Agnes Dís í 2.sæti með 33.68 stig, Kristín Valdís í 3.sæti með 30.31 stig og Þuríður Björg í því fjórða með 29.15 stig. Það verður því spennandi að fylgjast með stúlkunum á morgun í langa dansinum sem hefst kl. 11:40.

Kristín Valdís Örnólfsdóttir.
Kristín Valdís Örnólfsdóttir. Ljósmynd/Egill Andri Tryggvason
Agnes Dís Brynjarsdóttir.
Agnes Dís Brynjarsdóttir. Ljósmynd/Egill Andri Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert