Stúlkurnar skelltu heimaliðinu

Íslenska stúlknalandsliðið fagnar sigri á Englendingum í dag á Nevza …
Íslenska stúlknalandsliðið fagnar sigri á Englendingum í dag á Nevza mót­inu. Ljósmynd/Blaksambands Íslands

U17 ára landslið stúlkna í blaki vann í dag sigur á heimaliði Englands á Nevza-mót­inu í Ketter­ing á Englandi. Thelma Dögg Grétarsdóttir fór hamförum í leiknum með 27 stig en leikurinn endaði 3:1, í hrinum talið. 

Íslenska liðið byrjaði vel, var yfir 9:4 í fyrstu hrinunni. En svo sóttu þær ensku í sig veðrið og jöfnuðu 15:15. Þær komust svo yfir 15:19. Jafnt var svo á öllum tölum en England náði að vinna með minnsta mögulega mun, 23:25.

Íslensku stelpurnar byrjuðu af krafti í annarri hrinu og voru yfir í upphafi. Fram að stöðunni 19:19 var jafnt á öllum tölum. Undir lokin átti Sigdís Lind Sigurðardóttir frábæra uppgjafalotu og var það grunnurinn að góðum endaspretti Íslands í hrinunni.

Þriðja hrina einkenndist af mikill baráttu og leikgleði íslensku stelpnanna og virkilega gaman að fylgjast með þeim spila. Stelpurnar byrjuðu af krafti og komust í 5:0 og létu forystuna aldrei af hendi og unnu hrinuna örugglega 25:14.

Fjórða hrina var jöfn og mikil barátta í henni, íslensku stelpurnar sigu svo framúr og kláruðu hrinuna örugglega, 25:20.
Stigahæstar í leiknum voru Thelma Dögg Grétarsdóttir með 27 stig, María Rún Karlsdóttir 12 stig og Bergþóra Þórarinsdóttir og Herborg Vera Leifsdóttir báðar með 6 stig.

Stelpurnar mæta Færeyjum kl 12.00 á morgun í fjórðungsúrslitum en þær eiga einnig leik kl 19.30 annað kvöld. 

Íslensku strákarnir töpuðu fyrir Norðmönnum í þremur hrinum í hörkuleik, 27:25, 25:23, 25:21. Eins og sjá má á tölunum var um spennandi leik að ræða. Strákarnir okkar byrjuðu vel. Jafnt var á með liðunum upp í stöðuna 14:14 en þá náðu íslensku strákarnir góðum kafla og voru yfir 20:23 en norsku strákarnir náðu að jafna 23:23. Undir lokin dæmdi dómari leiksins snertingu á íslenska liðið sem leikmenn og áhorfendur sáu ekki. Hrinan fór 27:25 fyrir Noregi.

Í annarri hrinu komst Ísland í 0:5 og svo 2:7. Þeir áttu góðan kafla í upphafi, þar sem Theódór fór á kostum. Norsku strákarnir náðu að jafna í 10:10 og var jafnt á með liðunum upp í 20:20. Þá fóru norsku strákarnir fram úr, 24:21 og unnu hrinuna 25:23.

Þriðja hrinan byrjaði svipuð og sú fyrsta og jafnt var á öllum tölum upp í 21:21. Noregur nær svo að vinna hrinuna 25:21.  Stigahæstir hjá Íslandi voru Theódór Þorvaldsson með 16 stig og Valþór Karlsson með 7 stig.

Nánar má lesa um leiki íslensku liðanna á mótinu á heimasíðu Blaksambands Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert