Blakmenn á flugi í Svíþjóð

Alexander Stefánsson og Ingólfur Hilmar Guðjónsson í leik með Gautaborgarliðinu.
Alexander Stefánsson og Ingólfur Hilmar Guðjónsson í leik með Gautaborgarliðinu. Ljósmynd/Jóhannes Stefánsson

„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur og vonandi verður svo áfram,“ segir Alexander Stefánsson, leikmaður sænska blakliðsins Göteborg United en félagið hefur unnið sér inn keppnisrétt í næst efstu deild þegar síðari hluti keppnistímabilsins í sænska blakinu hefst eftir miðjan janúar.

Göteborg United vann sinn riðil í C-deildinni með nokkrum yfirburðum en keppni lauk á dögunum. Liðið vann alla leiki sína og tapaði aðeins fjórum hrinum.

Auk Alexander leikur Ingólfur Hilmar Guðjónson með Gautaborgarliðinu en þeir gengu til liðs við það haustið 2013 frá HK. Rífandi gangur var hjá liðinu á síðasta vetri og framhald hefur verið á það sem af er keppnistímabilinu. Liðið var styrkt nokkuð í haust og m.a. komu tveir úr meistaraliðinu Falkenbergs VBK, tveir öflugir strandblaksmenn og leikmaður frá Litháen sem er mikið heljarmenni í blaki, að sögn Alexanders.

„Það jákvæða í þessu öllu saman er að við Ingólfur höfum báðir náð að halda sæti okkar í liðinu þótt þessi liðsstyrkur hafi borist,“ segir Alexander sem lifir og hrærist í blakinu því auk æfinga og leikja næstum alla daga vikunnar tók hann að sér, ásamt Ingólfi, þjálfun kvennaliðs sem forráðamenn Göteborg United settu á stofn fyrir keppnistímabilið.

Sjá allt viðtalið við Alexander í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert