Ekki óeðlilegt að standa í stað eftir svona ár

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir undirbýr sig nú af kappi fyrir komandi keppnistímabil eftir ár bæði sigra og vonbrigða, í kjölfar ársins 2013 þar sem hún vann heims- og Evrópumeistaratitil í 800 metra hlaupi ungmenna.

Aníta hóf árið 2014 á því að setja Evrópumet 19 ára og yngri í 800 metra hlaupi innanhúss með því að hlaupa á 2:01,81 mínútu, sem jafnframt er Íslandsmet fullorðinna og gaf fyrirheit um áframhaldandi ævintýralegan árangur.

Anítu tókst þó ekki að bæta Íslandsmet sitt utanhúss um sumarið, og HM 19 ára og yngri í Bandaríkjunum var mót vonbrigða. Á sínu fyrsta stórmóti í flokki fullorðinna, EM í Zürich í ágúst, komst hún hins vegar í undanúrslit og hafnaði í 11. sæti, og hún fékk silfurverðlaun á sterku móti í sömu borg skömmu síðar. Stærsta mót ársins 2015 er HM fullorðinna í Peking í lok ágúst. Óvíst er hins vegar hvort Aníta, sem verður 19 ára í janúar, tekur þátt í því.

„Ég er mjög ánægður með styrk Anítu núna og æfingarnar í vetur,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu hjá ÍR, við Morgunblaðið í gær. Hann segir hægt að una vel við árangur ársins, þó að Aníta sjálf hafi viljað gera betur.

„Framfarirnar voru það hraðar í fyrra og árin á undan, að það er ekki óeðlilegt að svo komi eitt ár þar sem maður stendur í stað. Aníta var sjálf mjög ósátt við að bæta sig ekki á árinu, en staða hennar á heimslista hefur til að mynda lítið breyst og þetta ár staðfestir því í raun þessar miklu framfarir 2013. Hún er mjög sterk núna og ég á von á að það skili sér í bætingum á næsta ári.“

Sjá allt viðtalið við þjálfara Anítu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert