Hafsteinn og Elísabet blakfólk ársins

Elísabet Einarsdóttir og Guðbjörg Valdimarsdóttir, systir Hafsteins, sem tók við …
Elísabet Einarsdóttir og Guðbjörg Valdimarsdóttir, systir Hafsteins, sem tók við verðlaunum fyrir hans hönd í Laugardalnum í dag. Ljósmynd/BLÍ

Hafsteinn Valdimarsson, leikmaður danska meistaraliðsins Marienlyst, og Elísabet Einarsdóttir úr bikarmeistaraliði HK, voru í dag útnefnd blakfólk ársins 2014.

Hafsteinn, sem er 25 ára, varð danskur bikarmeistari í janúar og Danmerkurmeistari um vorið. Hann spilaði líka í úrslitum Norður-Evrópukeppni félagsliða þar sem Marienlyst varð í 4. sæti. Hafsteinn var kjörinn í lið ársins í dönsku deildinni. Hann var jafnframt einn af burðarásum íslenska landsliðsins í undankeppni EM smáþjóða í vor.

Hafsteinn leikur áfram með Marienlyst í vetur og er í titilbaráttu á öllum vígstöðvum. Liðið er komið í undanúrslit bikarkeppninnar og í toppbaráttu í dönsku úrvalsdeildinni.

Elísabet er aðeins 16 ára gömul. Hún varð bikarmeistari í mars og átti frábæra leiki í undanúrslitum og úrslitum. Hún var svo valin efnilegasti leikmaður síðustu leiktíðar í Mizuno-deildinni. Hún var valin í A-landsliðið í vor og spilaði sinn fyrsta landsleik aðeins 15 ára gömul í undankeppni EM smáþjóða.

Elísabet lék einnig í dönsku úrvalsdeildinni í strandblaki með Berglindi Gígju Jónsdóttur en þær léku á 10 mótum, unnu 2 þeirra og náðu tvívegis í bronsverðlaun. Þær skipuðu yngsta liðið til að vina mót í dönsku úrvalsdeildinni. Elísabet var svo valin efnilegust í deildinni. Hún lék einnig ásamt Berglindi fyrir Íslands hönd í undankeppni Ólympíuleika og EM U20 liða. Þær enduðu svo í 9. sæti af 32 liðum á Norður-Evrópumóti fullorðinna í lok ágúst. Elísabet varð þrefaldur Íslandsmeistari í strandblaki, í fullorðinsflokki, U19 og U17 flokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert