„Eina sem ég hafði var vonin“

Serena Williams með sigurlaun sín í morgun.
Serena Williams með sigurlaun sín í morgun. EPA

Serena Williams var skiljanlega í sigurvímu eftir að hafa unnið sinn nítjánda risatitil þegar hún fagnaði sigri á Opna ástralska meistaramótinu í tennis í morgun. Hún lagði Mariu Sharapovu í úrslitaleiknum og er nú í öðru sæti yfir flesta risatitla í sögunni.

„Maria spilaði frábærlega og við buðum upp á frábæran úrslitaleik, ekki bara fyrir áhorfendur heldur fyrir tennis kvenna í heild sinni. Ég er mjög stolt að hafa mætt henni í úrslitum,“ sagði Serena með verðlaunagripinn í fanginu.

„Ég var ekki efnuð þegar ég var að alast upp, en fjölskyldan mín var rík af dugnaði og stuðningi. Að standa hér með nítjánda risatitilinn er eitthvað sem mig grunaði aldrei að mundi gerast. Ég fór alltaf á völlinn með spaða, bolta og vonina. Það var allt sem ég hafði. Það er hvatning fyrir ykkur þarna úti sem vilja vera best. Þið getið það, ekki gefast upp og þú veist aldrei hvað gerist,“ sagði Serena Williams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert