Féll á lyfjaprófi en fékk styrk

Sigfús Fossdal.
Sigfús Fossdal. Kraft.is/Sigurjón Pétursson

Kraftlyftingamaðurinn Sigfús Fossdal, úr Kraftlyftingafélaginu Víkingi á Ísafirði, fékk 22. janúar síðastliðinn 300 þúsund króna eingreiðslustyrk frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að hann var dæmdur í tveggja ára keppnisbann í lok síðasta árs.

Í ársskýrslu Kraftlyftingasambands Íslands fyrir árið 2014 segir að Sigfús hafi verið varamaður í stjórn félagsins en hann var ekki endurkjörin fyrir árið 2015. Þá segir að hann hafi hafi hlotið bronsverðlaun á Norðurlandamóti í kraftlyftingum, bronsverðlaun á Norðurlandamóti í bekkpressu, 7. sæti á heimsmeistaramóti í bekkpressu og 4. sæti á heimsmeistaramóti í kraftlyftingum. Allt í í +120 kg flokki.

Á vefsvæði Alþjóða kraftlyftingasambandsins, sem Kraftlyftingasamband Íslands er aðili að, kemur hins vegar fram að Sigfús hafi fallið á lyfjaprófi þegar hann tók þátt í heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum. Þar kemur einnig fram að hann hafi sökum þess verið dæmdur í tveggja ára keppnisbann, frá 3. desember 2014, og til greiðslu 2.000 evra sektar, jafnvirði 300 þúsund króna.

Samkvæmt þessu hlaut því Sigfús sömu upphæð í afreksstyrk og honum ber að greiða í sekt fyrir að falla á lyfjaprófi.

Þess ber að geta að þeir sem falla á lyfjaprófi geta áfrýjað og samkvæmt heimildum mbl.is liggur endanleg niðurstaða ekki fyrir. Hins vegar er fremur sjaldgæft að áfrýjunardómstóll snúi niðurstöðu lyfjanefndar við auk þess sem mótbárur Sigfúsar þykja ekki trúverðugar. Ber hann við að hafa drukkið úr brúsa félaga síns og sökum þess hafi inntaka vefaukandi stera mælst. 

Hægt að fella styrkinn úr gildi

Í nefndri ársskýrslu er einnig vikið að lyfjamálum og segir þar: „Okkur er mikið í mun að sýna og sanna að meðlimir KRAFT stundi kraftlyftingar án notkunar ólöglegra efna og sýni eftirlitinu fullt traust og góða samvinnu. Það er undirstöðuatriði að öll félög innan KRAFT taki þátt í baráttunni gegn notkun óleyfilegra lyfja með fræðslu, áróðri og með því að skapa félagsanda og menningu sem útilokar allt slíkt.“

Heimildir mbl.is herma að innan kraftlyftingasambandsins íslenska hafi verið vitað að Sigfús féll á lyfjaprófinu á sama tíma og sambandið sótti um afreksstyrki fyrir félagsmenn sína, þar á meðal fyrir Sigfús. Fær þetta einkum stuðning í þeirri staðreynd að formaður sambandsins, Sigurjón Pétursson, er einnig formaður aganefndar Alþjóða kraftlyftingasambandsins.

Í starfsreglum Afrekssjóðs ÍSÍ segir: „Einungis umsóknir sérsambanda/íþróttanefnda ÍSÍ vegna þeirra íþróttamanna sem stunda íþrótt sína með áframhaldandi keppni eða afrek fyrir augum geta fengið styrki úr sjóðnum. Styrkveitingin er því ekki verðlaun fyrir unnin afrek, þótt þau séu lögð til grundvallar, heldur aðstoð og hvatning til frekari afreka og áframhaldandi keppni.“

Ennfremur segir í sömu reglum: „Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til þess að fella styrkveitingar til einstaklinga og flokka tafarlaust úr gildi ef aðstæður breytast eða sjóðsstjórn hafa verið gefnar rangar eða villandi upplýsingar.“

Engar greiðslur ef dómurinn er staðfestur

Örn Andrésson, formaður afrekssjóðs ÍSÍ, segir að umsóknir um afreksstyrki hafi borist í lok nóvember og í byrjun desember. Hann segir að að sjóðurinn hafni ekki mönnum þrátt fyrir að grunur leiki á að þeir hafi fallið á lyfjaprófi og að endanleg niðurstaða hafi ekki fengist í máli Sigfúsar Fossdal. Ljóst sé að verði niðurstaðan staðfest þá muni ÍSÍ ekki greiða Sigfúsi 300 þúsund króna styrkinn.

Í samtali við blaðamann mbl.is áréttar Örn að þessar upplýsingar væru ekki opinberar og að afrekssjóðurinn hefði ekki haft þær hjá sér þegar styrkveitingarnar voru samþykktar. Á það skal því bent að á vefsvæði Alþjóða kraftlyftingasambandsins er listi yfir þá sem féllu á lyfjaprófi í fyrra og þar má finna nafn Sigfúsar.

Örn segir ennfremur að fylgst verði með framvindu málsins.

Sigfús Fossdal.
Sigfús Fossdal. Ljósmynd/kraft.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert