Fimmti sigur Djokovic í Ástralíu

Novak Djokovic fagnar síðasta stigi sínu og sigrinum um leið …
Novak Djokovic fagnar síðasta stigi sínu og sigrinum um leið í dag. AFP

Serbinn Novak Djokovic var rétt í þessu að bera sigur úr býtum á Opna ástralska meistaramótinu í tennis, fyrsta risamóti ársins, eftir sigur á Bretanum Andy Murray í úrslitaleik í Melbourne. Þetta er áttundi risatitill hans á ferlinum.

Leikurinn byrjaði af krafti. Djokovic vann fyrsta settið eftir upphækkun 7:6 (7:5) og ljóst að um mikla baráttu yrði að ræða. Murray kom til baka í öðru setti og vann það, 7:6 (7:4), sömuleiðis eftir upphækkun, en eftir fyrstu tvær loturnar hafði leikurinn staðið í tæpar tvær klukkustundir.

Þá var eins og vindur væri úr Murray og Djokovic vann næstu tvær loturnar nokkuð þægilega, fyrst 6:3 og svo örugglega 6:0 og tryggði sér sigurinn.

Þetta var fimmti sigur hans á þessu móti og er hann einungis annar maðurinn í sögunni sem nær þeim áfanga. Hann er nú einum sigri á eftir Roy Emerson sem vann mótið sex sinnum á sínum tíma.

Andy Murray niðurlútur í síðasta settinu.
Andy Murray niðurlútur í síðasta settinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert