Emilía sló annað stigamet

Emilía Rós Ómarsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar sló heildarstigametið í stúlknaflokki A á seinni keppnisdegi Vetrarmóts Skautasambands Íslands í Egilshöllinni í dag.

Emilía Rós, sem einnig sló stigametið í stutta prógraminu í gær, hlaut 81,05 stig samanlagt. Fyrra metið, 74,39 stig, átti Júlía Grétarsdóttir, Birninum, en það setti hún á Haustmótinu árið 2010.

Helga Karen Pedersen, Birninum, hafnaði í öðru sæti með 58,50 stig og Herdís Birna Hjaltalín, Birninum, hafnaði í því þriðja með heildarskor upp á 55,44 stig.

Þuríður Björg Björgvinsdóttir, Birninum, sigraði í spennuþrunginni keppni í unglingaflokki A en hún náði hreinu þreföldu „Salchow“ stökki og sigraði með heildarskor uppá 86,90 stig. Kristín Valdís Örnólfsdóttir, SR, varð önnur með 84,91 stig og Júlía Grétarsdóttir, Birninum, sem æfir og keppir í Kanada, náði þriðja sæti með 81,15 stig.

Ivana Reitmeyerova frá Slóvakíu, sem náði lágmörkum til keppni á Ólympíuleikum árið 2010, var eini keppandinn í kvennaflokki. Hún sýndi glæsileg tilþrif og uppskar mikil fagnaðarlæti frá áhorfendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert