Lofum hörkuleikjum

Ingólfur Tryggvi Elíasson aðþrengdur í leiknum gegn Esju í kvöld.
Ingólfur Tryggvi Elíasson aðþrengdur í leiknum gegn Esju í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Ingólfur Tryggvi Elíasson er búinn að vera lengi í liði SA Víkinga, þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs. Hann gat ekki valið betri tíma til að skora sitt fyrsta mark á tímabilinu þegar hann jafnaði leikinn í 2:2 gegn Esjunni í kvöld. Markið hleypti auknum krafti í lið SA sem náði að knýja fram sigur í leiknum með marki fimm mínútum fyrir leikslok.

SA mun spila gegn SR í úrslitakeppni Íslandsmótsins en fyrst þurfa liðin að kljást í deildarkeppninni á laugardag til að skera úr um hvort liðið mun fá heimaleikjaréttinn þegar í úrslitakeppnina kemur. Ingó, eins og drengurinn er jafnan kallaður, var hinn rólegasti í viðtali eftir leik.

„Þetta var bölvað bras og við duttum ekki í gang fyrr en eftir jöfnunarmarkið. Við spiluðum loks okkar hokkí síðustu 10 mínúturnar. Mér líst vel á SR-liðið  sem andstæðinga í úrslitunum. Þeir eru heitasta liðið á landinu í dag og eru nýbúnir að vinna okkur tvisvar. Við þurfum að mæta mjög grimmir á móti þeim. Þeir eru með yngra og reynsluminna lið en hungrið er örugglega þeim mun meira. Við getum bætt leik okkar heilmikið, sérstaklega í að hirða lausan pökk framan við markið hjá okkur og reyndar líka fyrir framan mark andstæðinganna.“

Ingó var svo spurður um markið sem hann skoraði í leiknum. „Þetta var bara þrumuskot yfir öxlina á markmanninum, rétt undir þverslána. Það var kominn tími á þetta og ég hefði getað bætt við öðru.“

Aðalatriðið er samt alltaf næsti leikur. „Það verður bara gaman á laugardaginn þegar þeir koma hingað norður í lokaleik deildarinnar. Þar lofum við hörkuleik eins og í allri úrslitakeppninni sem framundan er,“ mælti hinn óvænti bjargvættur SA Víkinga að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert