Aníta þriðja best á árinu

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Eggert

Aníta Hinriksdóttir á þriðja besta tímann á þessu ári af þeim 21 keppanda sem skráður er til leiks í 800 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum innanhúss í Prag um næstu helgi.

Keppendalistinn á EM var birtur í gær og ljóst er að hún á langbestu möguleikana af þeim sex Íslendingum sem taka þátt í mótinu.

Aníta er fimmta í greininni á heimslista Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins fyrir árið 2015 en hún setti Íslandsmet í janúar þegar hún hljóp á 2:01,77 mínútum í Laugardalshöllinni.

Jenny Meadows frá Bretlandi hljóp á 1:59,21 mínútu í Vínarborg í lok janúar og Joanna Józwik frá Póllandi hjóp á 2:00,01 mínútum í heimalandi sínu í byrjun febrúar.

Ajee Wilson sem er þriðja á heimslistanum er bandarísk og því ekki með í Prag og Ajvika Malanova frá Rússlandi, sem er fjórða, er ekki í hópi þeirra þriggja rússnesku keppenda sem hlaupa í Prag.

Rússar eiga níu af 23 bestu keppendum í 800 metra hlaupi á þessu ári en aðeins þrjár þeirra fá að hlaupa í Prag. Að öðru leyti eru allar þær fremstu í Evrópu með í greininni á þessu móti.

Það er þó of snemmt að bóka Anítu í baráttu um verðlaunasæti því fimm aðrar sem skráðar eru til leiks hafa náð betri tíma en Aníta þó þeim hafi ekki tekist það á þessu ári.

 Sjá nánar umfjöllun um íslensku keppendurna á EM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert