Skora 2-3 mörk í lokaleiknum

Ingþór Árnason skorar sigurmark SA en Daníel Freyr Jóhannsson markvörður …
Ingþór Árnason skorar sigurmark SA en Daníel Freyr Jóhannsson markvörður Esju kemur ekki við vörnum. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Daníel Freyr Jóhannsson, markvörður íshokkíliðs Esju, var gripinn glóðvolgur í búningsklefa Esjumanna eftir leik þeirra og SA Víkinga í kvöld.

Daníel virðist kunna vel við sig í Innbænum á Akureyri en þar er faðir hann fæddur og uppalinn. Var drengurinn í stuði og klárlega maður leiksins. Hann varði oft virkilega vel, alls 41 skot. Frammistaðan dugði þó ekki því SA kreisti fram 3:2 sigur með tveimur mörkum á síðustu 12 mínútunum.

„Mér gekk ágætlega í leiknum en því miður þá duttum við aðeins niður í restina. Það hefur loðað aðeins við okkur í vetur að missa niður jafna leiki og í kvöld vorum við að spila á fáum mönnum og það tók eflaust sinn toll. Ég bara sá ekki pökkinn þegar þeir jöfnuðu í 2:2. Það var ansi gremjulegt.“

Esja er nýtt lið í deildinni og segir Daníel Freyr veturinn hafa verið viðburðaríkan en strembinn. ,,Þetta er búið að vera gaman og ég vona að Esjuliðið muni halda áfram næsta vetur. Aðstaðan sem við búum við er hrikalega erfið. Við fáum að geyma dótið okkar í 10 m2 gámi utan við Skautahöllina í Laugardal og svo æfum við þrisvar í viku, 50 mínútur í senn seint á kvöldin. Maður er að skríða heim um klukkan eitt á nóttunni.

Kostnaðurinn er einnig mikill og við borgum ferðir og ístíma sjálfir. Það væri ágætt ef við hefðum nauðsynlega lágmarkaðsöðu til að jafna aðeins aðstöðumun liðanna í deildinni. Þetta hark dregur að sjálfsögðu úr mönnum en eins og ég segi þá vona ég að liðið sé komið til að vera. Deildin í vetur hefur þó verið skemmtileg og jöfn og ég tel að tilkoma okkar hefi gert hana sterkari. Hin liðin hafa fengið til sín sterka útlendinga sem gera bara gott fyrir deildina og okkur Íslendingana.“

Daníel Freyr, sem var vafinn inn í handklæði allt viðtalið, mátti taka við glósum frá félögum sínum allan tímann. Skeggprúðir og fullklæddir hurfu liðsfélagarnir úr klefanum hver á fætur öðrum og virtust menn eldhressir. „Jú, við þekkjumst vel og erum á svipuðum aldri og það er gaman hjá okkur.“ Um síðasta leik vetrarins sem leikinn verður gegn Birninum á laugardaginn sagði Daníel „Ég verð væntanlega útispilari og þá garantera ég 2-3 mörk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert