Stefnan er tekin á úrslitahlaupið

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Eggert

„Undirbúningur hefur gengið vel en að sama skapi vitum við að keppnin á eftir að verða mikil og afar jöfn,“ segir Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur hlaupakonu, sem hleypur í undanrásum í 800 m hlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Prag í fyrramálið.

„Margir andstæðingar Anítu hafa náð afar líkum árangri og hún á þessu ári og því er ljóst að það er ekkert gefið í þessu,“ sagði Gunnar Páll ennfremur í samtali við Morgunblaðið í gær en hann var þá nýlentur ásamt íslenska keppnishópnum og þjálfurum á flugvellinum í Prag eftir að hans sögn þægilegt ferðalag frá Íslandi.

„Það er ekkert launungarmál af okkar hálfu að stefnan er tekin á að komast í úrslitahlaupið,“ segir Gunnar Páll og bætir við að enn sé ekki ljóst hvort keppendur verði svo margir að það komi til að keppt verði í undanrásum og undanúrslitum áður en kemur að úrslitahlaupinu eða hvort aðeins verði keppt í undanúrslitum og síðan úrslitum.

„Það skýrist betur eftir tæknifund á morgun [í dag] hversu margir keppendur verða en við reiknum með að þeir verði það margir að það verði byrjað að grisja úr með undanrásum,“ segir Gunnar Páll og bendir á að á EM fyrir tveimur árum hafi margir keppendur helst úr lestinni á síðustu stundu með þeim afleiðingum að aðeins voru undanúrslit áður en kom að úrslitahlaupinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert