Hafdís stolt og ánægð með 12. sætið

Hafdís Sigurðardóttir.
Hafdís Sigurðardóttir. Eggert Jóhannesson

„Ég setti mér það markmið að komast í úrslit og ég vissi að ég þyrfti örugglega að bæta Íslandsmetið til að ná því, sem varð svo raunin,“ sagði Hafdís Siguðardóttir Íslandsmethafi í langstökki við mbl.is í dag en hún stökk lengst 6,35 metra í dag á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Prag í dag.

„Svo vissi ég reyndar ekki fyrr en seinnipartinn í gær að það kæmust bara átta áfram, það var pínu áfall, líka af því að ég lenti í 12. sæti,“ sagði Hafdís en aðeins átta keppendur komast í úrslitin í langstökkinu. Kom það Hafdísi á óvart þar sem venjulega eru tólf laus sæti í úrslitum.

„Það hefur verið þannig undanfarið og er í flestum keppnum. Það komast því hlutfallslega miklu fleiri áfram í hlaupagreinunum í gegnum fyrsta niðurskurð þannig að ég var ekki alveg ánægð með þetta,“ sagði Hafdís sem þurfti að stökkva 6,53 metra til að komast í úrslitin en Íslandsmet hennar er 6,47 metrar.

„Ég þurfti að stökkva 6,53. Þetta eru ekki margir sentímetrar ef maður horfir á málbandið en þó nokkrir. Þær voru allar mjög jafnar. Ég er samt rosalega ánægð með 12. sætið og er mjög stolt af því,“ sagði Hafdís en 22 keppendur tóku þátt í keppninni.

„Þetta var frekar hörð keppni en þær stukku ekki neitt brjálæðislega langt. Það eru tvær sem komast inn í úrslit á lágmarkinu sem var sett þangað, 6,65, hinar fóru bara inn á sæti, “ sagði Hafdís sem var lengi vel í baráttunni.

„Maður hefði alveg getað blandað sér í baráttuna og ég var þar lengi vel en svo náðu þær að kreista fram nokkur ágæt stökk. Þær gerðu reyndar svolítið mikið ógilt og það vann vann með mér þar sem þær fóru að negla á það í síðasta stökki og gera nokkur ógild stökk,“ sagði Hafdís sem var á leið í verslunarleiðangur með öðrum íslenskum keppendum í Prag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert