Tíminn lagast ekki þótt ég bölvi þessum manni

Kolbeinn Höður Gunnarsson.
Kolbeinn Höður Gunnarsson. Eggert Jóhannesson

„Ég kem þarna, og er annar ef ég man rétt út úr 200 metrunum og þeir eru allir á annarri braut og ætla sér greinilega ekkert að taka þessa lengri leið. Einn þeirra ákveður bara að ýta mér af brautinni til þess að koma sér inn á fyrstu brautina,“ sagði spretthlauparinn Kolbeinn Höður Gunnarsson við mbl.is eftir 400 m hlaup hans í dag á Evr­ópu­meist­ara­mót­inu í Prag.

Kolbeinn var á góðu skriði eftir fyrstu 200 metrana á fyrstu brautinni en var nánast hrint úr leik eins og við sögðum frá fyrr í dag þegar Pólverjinn Rafael Omelko ýtti við honum í hlaupinu og kom Kolbeini úr jafnvægi. Kolbeinn tók því þó með jafnaðargeði.

„Tíminn lagast ekkert þótt maður sé reiður yfir þessu og ég verð ekkert fljótari þótt ég bölvi þessum manni, ég ætla bara að fara að versla,“ sagði Kolbeinn þokkalega hress á því í Prag.

„Reynslan skiptir gríðarlegu máli þarna, maður þarf að læra af þessu og láta þetta ekki koma fyrir aftur. Þetta er auðvitað svekkjandi og maður hefði viljað gera betur. Á tímabili, þegar ég steig út af, hugsaði ég: „Jæja, nú er ég langsíðastur, á ég ekki bara að hætta þessu?“ en ég ákvað að klára hlaupið, bara upp á það að klára,“ sagði Kolbeinn.

Að sögn Kolbeins verða engin eftirmál af þessu, Kolbeinn fær ekki annað hlaup.

„Við hefðum getað kært og þá hefði hugsanlega þessi maður getað verið dæmdur úr leik en það breytir engu fyrir mig. Ég nenni ekkert að vesenast í því, ég fæ ekkert að hlaupa aftur og tíminn hjá mér verður ekkert betri,“ sagði Kolbeinn sem gekk þó vel í hlaupinu fram að stimpingunum.

„Þetta leit mjög vel út og maður veit aldrei hvað hefði gerst. Kannski hefði þetta verið nýtt met, kannski ekki. Þetta er alltaf svekkjandi en það koma önnur hlaup eftir þetta. Maður hefur nógan tíma til að bæta þetta upp,“ sagði Kolbeinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert