Strákarnir ósigraðir upp um deild

Íslenska liðið fyrir leik í Taívan, þar sem liðið vann …
Íslenska liðið fyrir leik í Taívan, þar sem liðið vann alla sína leiki. Ljósmynd/Árni Geir Jónsson

Íslenska landsliðið í íshokkí karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, spilaði í morgun síðasta leik sinn í A-riðli 3. deildar heimsmeistaramótsins sem fram fer í Taívan. Ísland hafði unnið alla fjóra leikina og mætti Ísrael í leik sem mundi skera úr um toppsæti riðilsins.

Ísland byrjaði betur í leiknum og Sölvi Atlason kom þeim yfir á tólftu mínútu eftir undirbúning Jóns Árnasonar. Edmund Induss bætti við marki þremur mínútum síðar eftir undirbúning Kristjáns Kristinssonar og Elvars Ólafssonar og staðan 2:0 fyrir Ísland eftir fyrsta leikhluta.

Enn vænkaðist hagur Íslands snemma í öðrum hluta þegar Hafþór Sigrúnarson skoraði eftir undirbúning Jóns og Elvars, en þá kom góður kafli hjá Ísraelsmönnum. Þeir skoruðu tvö mörk á tæpri mínútu og hleyptu aukinni spennu í leikinn fyrir síðasta leikhuta. Hart var barist undir lokin þar sem íslensku strákarnir voru mikið í refsiboxinu. Þeir héldu hins vegar út og uppskáru 3:2 sigur.

Ísland vann alla sína leiki á mótinu, tvo eftir framlengingu og endaði í efsta sæti A-riðils með 12 stig. Það tryggði sigur í 3. deildinni og eru strákarnir eru því komnir upp í B-riðil 2. deildar. Glæsilegur árangur hjá þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert