Grétar Mar Íslandsmeistari

Grétar Mar Axelsson.
Grétar Mar Axelsson. Ljósmynd/Jóhann A. Kristjánsson

Grétar Mar Axelsson, Skotfélagi Akureyrar, hafði erindi sem erfiði með suðurför sinni en hann tryggði sér íslandsmeistaratitilinn í Grófskammbyssu sem fór fram í Íþróttahúsinu Digranes í dag.

Þar skoraði Grétar Mar 548 stig. Daginn áður, á laugardeginum hafði hann einnig sigrað á Íslandsmeistaramótinu í Sportskammbyssu sem fram fór í Egilshöll. Það voru því tveir Íslandsmeistaratitlar sem Grétar Mar hafði í farteskinu er hann hélt aftur norður. Karl Kristinsson, Skotfélagi Reykjavíkur, varð í öðru sæti á Íslandsmeistaramótinu, skoraði 542 stig og skaut sig upp um flokk. Eiríkur Jónsson, Skotíþróttafélagi Kópavogs varð svo í 3. sæti með 517 stig.
 
0 Flokkur
Keppt var í öllum flokkum á mótinu og var það Kolbeinn Björgvinsson, Skotfélagi Reykjavíkur, sem varð Íslandsmeistari í 0 flokki. Kolbeinn skoraði 512 stig og færist því upp um flokk, í þriðja flokk. Ólafur Egilsson, Skotíþróttafélagi Kópavogs varð annar í 0 flokki og skaut hann sig einnig upp í 3. flokk með 507 stiga skori. Emil Kárason, einnig úr Skotíþróttafélagi Kópavogs, varð þriðji í 0 flokkinum á 506 stiga skori sem dugði honum einnig til að flytjast upp um flokk.
 
3. Flokkur
Sigurgeir Guðmundsson, Skotíþróttafélagi Kópavogs, varð Íslandsmeistari í 3. flokki á 508 stigum. Engilbert Runólfsson, Skotfélagi Reykjavíkur, varð annar  með 496 stig og Jón Árni Þórisson, einnig í Skotfélagi Reykjavíkur, varð þriðji með 467 stig.
 
2. Flokkur
Karl Kristinsson Skotfélagi Reykjavíkur, sigraði í 2. flokki á 542 stigum. Eiríkur Jónsson, Skotíþróttafélagi Kópavogs varð annar á 517 stigum og Félagi hans úr SFK, Friðrík Goethe varð í þriðja sæti 2. flokks á 501 stigi.
 
1. Flokkur
Einungis einn keppandi var í 1. flokki en það var Grétar Mar sem sigraði einnig í opna flokkinum.
 
Liðakeppni
A sveit Skotfélags Reykjavíkur sigraði í liðakeppninni með 1550 stig en sveitina skipuðu Karl Kristinsson, Kolbeinn Björgvinsson og Engilbert Runólfsson.
A sveit Skotíþróttafélags Kópavogs varð í öðru sæti með 1526 stig. Sú sveit var skipuð Sigurgeiri Guðmundssyni, Eiríki Jónssyni og Friðríki Goethe. B sveit  Skotíþróttafélags Kópavogs varð svo í þriðja sæti með 1491 stig og var sú sveit skipuð Guðmundi Tryggva Ólafssyni, Emil Kárasyni og Ólafi Egilssyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert