Stjarnan náði Íslandsmeistaratitlinum á ný

Stjarnan fagnar þegar úrslitin voru ljós.
Stjarnan fagnar þegar úrslitin voru ljós. Eggert Jóhannesson

Stjarnan varð Íslandsmeistari í hópfimleikum kvenna eftir æsispennandi baráttu við Gerplu núna rétt í þessu. Er þetta fyrsti titill Stjörnunnar síðan 2005 en Gerpla hafði unnið níu Íslandsmót í röð fram að þessu.

Gerpla og Stjarnan hófu keppni á trampólíni.  Þar gerði Stjarnan betur og náði 0.300 stiga forystu.  Bæði lið voru með frábærar æfingar á gólfi og hlaut Stjarnan 21.716 stig fyrir sínar æfingar en Gerpla 21.633 stig.  Munurinn á liðunum fyrir lokaumferðina á dýnu var því 0.383 stig og enn möguleiki fyrir Gerpluna að klóra í bakkann.

Á dýnu gekk allt eins og sögu hjá Stjörnunni þar til í lokaumferðinni, þar voru þrjár lendingar sem hefðu getað verið betri og því örlítil vonarglæta fyrir Gerplu sem mátti ekki gera nein mistök.  Mistökin voru hinsvegar til staðar, Gerpla hlaut 15.950 stig á móti 17.000 stigum Stjörnunnar og Íslandsmeistaratitill Stjörnunnar því orðinn að veruleika og níu ára sigurganga Gerplu stöðvuð.

Fyrsti titill Selfoss

Í blönduðum flokki bar Selfoss sigur úr býtum eftir keppni við Stjörnuna. Er þetta fyrsti titill Selfyssinga í fullorðinsflokki í fimleikum. Selfoss hlaut samanlagt 52.683 stig fyrir sínar æfingar og var efst á öllum áhöldum, en Stjarnan hlaut 48.233 stig. Ármann fékk bronsið.

Selfoss gekk gríðarlega vel á dýnu, þeirra slakasta áhaldi.  Það var því á brattann að sækja fyrir Stjörnuna frá fyrstu stundu og brekkan varð bara brattari.  Selfoss fékk 17.550 stig á trampólíni á meðan Stjarnan fékk 15.200 stig og forysta Selfoss því orðin 3.250 stig og kraftaverk þurfti til að Stjarnan hirti af þeim titilinn. Það kraftaverk kom ekki og Selfoss tryggði sér því fyrsta tiltilinn í sögu félagsins í fjölþraut. 

Í karlaflokki var eitt lið skráð til leiks og unnu því Gerplustrákar karlaflokkinn. Íslandsmeistaratitillinn varð þeirra fyrir 52.100 stig.

Íslandsmótið fer fram í Ásgarði í Garðabæ og var stemningin nú í kvöld alveg til fyrirmyndar. Áhorfendur létu vel í sér heyra og hvöttu sín lið óspart til dáða.

Gerpla hafði unnið titilinn níu ár í röð þangað til …
Gerpla hafði unnið titilinn níu ár í röð þangað til nú. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert