Vonandi skipta þjálfararnir einhverju máli

Selfoss sigraði í blönduðum flokki á Íslandsmótinu í hópfimleikum
Selfoss sigraði í blönduðum flokki á Íslandsmótinu í hópfimleikum mbl.is/Eggert

Selfyssingar voru kampakátir eftir Íslandsmótið í hópfimleikum í kvöld en þeir sigruðu í blönduðum flokki. Þjálfararnir, Tanja Björnsdóttir og Olga Bjarnadóttir, voru kátar þegar blaðamaður mbl ræddi við þær en titilinn var fyrsti titill bæjarfélagsins í fullorðinsflokki í hópfimleikum.

„Það hefur verið svolítil fimleikavakning síðustu ár í bænum,“ sagði Tanja. „Við vorum tilbúin og liðið búið að æfa sig vel og fórna miklu,“ bætti Olga við.

Liðið sýndi frábæra takta í kvöld og greinilegt að strákarnir á Selfossi eru góðir í fimleikum. En er von á strákaliði frá Selfyssingum? „Við erum með mjög spræka stráka en það er svolítið langt í næstu kynslóð. Þessir eru búnir að alast upp hjá okkur, vaxa og dafna og eru heldur betur að gera það gott en það verður erfitt að koma með karlalið af því að þeir eru of fáir,“ sagði Olga. Bætir hún við að strákar sem hafi áhuga á fimleikum séu alltaf velkomnir á Selfoss.

Skyldu þjálfararnir vera farnir að huga að næsta tímabili, svona rétt eftir þennan sigur? „Það er Norðurlandamót í byrjun nóvember og við ætlum að gera okkar allra besta þar,“ sagði Tanja. 

„Við gerum það sem við getum og gerum það eins vel og við getum og svo kemur bara í ljós hverju það skilar okkur. Við getum ekki breytt því sem hinir gera,“ sagði Olga.

En blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort þjálfararnir skipti einhverju máli. „Við erum til þess að aðstoða þau. Vonandi skiptum við einhverju máli,“ sögðu þær hlæjandi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert