Gunnar Huseby og Torfi í Heiðurshöll ÍSÍ

Úr landskeppni Íslands og Danmerkur á Melavelli 1950. Gunnar Huseby …
Úr landskeppni Íslands og Danmerkur á Melavelli 1950. Gunnar Huseby á efsta palli. Ólafur K. Magnússon

Gunnar Huseby (1923-1995) kúluvarpari og langstökvarinn Torfi Bryngeirsson (1926-1995) voru teknir í dag teknir inn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á 72. íþróttaþingi sambandsins sem hófst í gær og lauk rétt í þesssu en þeir urðu báðir Evrópumeistarar í sinni grein árið 1950.

Gunnar varð tvívegis Evrópumeistari í kúluvarpi og hlaut þann titil fyrstur Íslendinga, fyrst árið 1946 í Osló og fjórum árum síðar varði hann titil sinn í greininni í Brüssel en þá varð Torfi einnig Evropumeistari í langstökki.

Gunnar var afreksmaður í kastgreinum og í fremstu röð hér á landi í kringlukasti og sleggjukasti en hans aðalgrein var auðvitað kúluvarpið þar sem hann var besti kúluvarpari landsins í tvo áratugi. Átján ára gamall árið 1941 lét hann fyrst að sér kveða en hann hætti keppni árið 1962, 39 ára að aldri. 

Lengst kastaði Gunnar kúlunni 16,74 metra en það kast hans kom á Evrópumeistaramótinu í Brüssel 1950 og var þá nýtt Evrópumet. Það kom í hlut Guðmundar Hermannssonar að slá það tæpum tveimur áratugum seinna.

Kast upp á 15,56 metra í Osló 1946, tryggði Gunnari Evrópumeistaratitilinn með nokkrum yfirburðum en hann kastaði 30 sentímetrum lengra en næsti maður.

Ásamt Íslandsmetum í kúluvarpi setti Gunnar einnig fjölda Íslandsmeta í kringlukasti en hann var afar fjölhæfur íþróttamaður og keppti meðal annars í langstökki, hástökki, kúluvarpi auk þess sem hann þótti liðtækur knattspyrnumaður og var kominn í meistaraflokk KR þegar hann hætti knattspyrnuiðkunn.

Gunnar glímdi lengi við áfengisvandamál og missti af tvennum Ólympíuleikum, árin 1948 og 1952 af þeim sökum þar sem hann átti góðan möguleika á verðlaunum en Gunnar varð síðar ötull í baráttu og vinnu fyrir AA-samtökin. 

„Það er margs að minnast frá löngum ferli en Evrópumeistaratitlarnir standa þó upp úr. Þeir veittu mér gríðarlega ánægju,“ sagði Gunnar í blaðaviðtali við Víði Sigurðsson, núverandi blaðamann Morgunblaðsins, árið 1994.

Í úrslit í báðum greinum

Torfi tók þátt á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 1948 og keppti þá í stangarstökki og var hársbreidd frá því að komast í úrslit. Torfi keppti bæði í stangarstökki og í langstökki á Evrópumeistaramótinu í Brüssel.

Hann komst í úrslit í báðum greinum en þau fóru fram á sama tíma. Því þurfti Torfi að velja um grein og varð langstökkið fyrir valina en þá grein vann hann með stökki upp á 7,32 metra, 12 sentímetrum lengra en næsti maður.

Torfi komst einnig í úrslit í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Helsinki árið 1952 en vann ekki til verðlauna en síðasta stórmót hans var í Bern árið 1954.

Gunnar Huseby, frjálsíþróttamaður og Evrópumeistari í kúluvarpi var tekinn inn …
Gunnar Huseby, frjálsíþróttamaður og Evrópumeistari í kúluvarpi var tekinn inn í Heiðurhöll ÍSÍ. Jim Smart.
Torfi Bryngeirsson í stangarstökki í landskeppni Íslands og Danmerkur á …
Torfi Bryngeirsson í stangarstökki í landskeppni Íslands og Danmerkur á Melavelli árið 1950. Ólafur K. Magnússon
T.v. Torfi Bryngeirsson ræðir við Bjarna Benediktsson ráðherra. Ekki er …
T.v. Torfi Bryngeirsson ræðir við Bjarna Benediktsson ráðherra. Ekki er óhugsandi að myndin sé tekin í boði sem haldið var eftir að keppendur á EM í Brussel 1950 komu heim en þar varð Torfi Evrópumeistari í langstökki. Ólafur K. Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert