„Við rokkuðum í kvöld“

Baráttuhundurinn Jónas Breki Magnússon var kampakátur með frammistöðu íslenska landsliðsins í íshokkí í Laugardalnum í kvöld þar sem liðið skellti Áströlum 6:1 í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins. 

Jónas Breki lagði upp annað mark Íslands í kvöld fyrir Egil Þormóðsson. Hann sagði það einhverra hluta vegna henta íslenska liðinu vel að vera litla liðið og þá kæmu landsliðsmennirnir rétt stilltir í leikina en tap fyrir Ástralíu í kvöld hefði væntanlega þýtt fall niður í B-riðil. Jónas sagði íslenska liðið aldrei hafa verið talið sterkasta liðið í 2. deild frá því það vann sig upp úr 3. deildinni fyrir mörgum árum og þó landsliðsmennirnir hafi ætlað sér efsta sætið að þessu sinni þá hafi menn ekki ráðið almennilega við þá stöðu.

Ísland hefur unnið Belgíu og Ástralíu í mótinu en tapað fyrir Serbíu og Spáni. Á sunnudagskvöld mætir Ísland toppliði riðilsins, Rúmeníu, í lokaleiknum. 

Jónas Breki fagnar marki Egils í kvöld.
Jónas Breki fagnar marki Egils í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert