„Örugglega besti leikur sem ég hef spilað“

Snorri Sigurbergsson var í byrjunarliði hjá A-landsliðinu í fyrsta skipti …
Snorri Sigurbergsson var í byrjunarliði hjá A-landsliðinu í fyrsta skipti í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Markvörðurinn Snorri Sigurbergsson var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í A-landsliðinu þegar Ísland tapaði 2:3 fyrir Rúmeníu eftir framlengdan leik í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. 

„Þetta var ógeðslega gaman. Þetta er örugglega besti leikur sem ég hef spilað á ferlinum. Það var geggjað að hafa stuðningsmennina (Tólfan) og það hjálpaði helling. Ég hef beðið eftir því lengi að fá tækifærið í byrjunarliðinu og það er draumur að rætast að spila fyrir Ísland á heimavelli fyrir framan vini og fjölskyldu,“ sagði Snorri þegar mbl.is tók hann tali í kvöld. 

Snorri segist hafa verið stressaður fyrir leikinn. „Þetta var svolítið stress en þegar ég horfði upp í stúku og heyrði „Ísland, Ísland,“ þá hvarf stressið og ég fékk sjálfstraust um leið.“

Ekki var við öðru að búast en að Snorri myndi fá nóg að gera í markinu því Rúmenía vann alla aðra leiki sína í riðlinum í venjulegum leiktíma. Snorri var ósáttur við sjálfan sig í öðru marki Rúmena en hann varði hins vegar nokkur dauðafæri frá þeim og bætti rækilega upp fyrir annað markið. „Hann gerði þetta vel og tókst að troða pökknum í gegnum lítið pláss sem myndaðist. Mér fannst ég ná að bæta þetta upp og þannig eru svona leikir,“ sagði Snorri Sigurbergsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert