„Við spiluðum betur en í fyrra“

Birkir sækir að marki Serba.
Birkir sækir að marki Serba. mbl.is/Ómar Óskarsson

Varnarmaðurinn Birkir Árnason var valinn besti leikmaður íslenska landsliðsins í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins af þjálfarateymi Íslands en mótinu lauk í kvöld. 

Ísland hafnaði í 5. sæti en liðið fékk 7 stig rétt eins og Serbía og Spánn en féll niður í 5. á innbyrðisviðureignum. Belgía varð í 2. sæti með 8. stig en Ísland vann Belgíu 3:0. Íslenska liðið var auk þess það eina sem tók stig af Rúmeníu sem vann riðilinn og kemst upp í 1. deild. „Ég held að þetta séu ekki stór vonbrigði og ég held að fáir okkar séu leiðir eftir mótinu. Fyrst og fremst vegna þess að við stóðum okkur ágætlega og spiluðum það hokkí sem við vildum spila. Við spiluðum betur en í fyrra sem dæmi. Áður lögðum við höfuðáherslu á vörn og skyndisóknir en núna erum við meira skapandi. Áður áttum við kannski eina ógnandi línu sem skoraði mörkin en hinar línurnar lágu í vörn. Nú eigum við nokkrar línur sem geta skorað mörk. Á heildina litið spiluðum við flott hokkí í mótinu,“ sagði Birkir þegar mbl.is ræddi við hann í Skautahöllinni í kvöld.

Ísland hafnaði í 2. sæti í riðlinum í fyrra í Serbíu en Birkir segir að liðið hafi ekki spilað verr í ár. „Við erum kannski ekki tilbúnir að fara strax upp í 1. deild. Þetta árið féllu hlutirnir ekki með okkur í jöfnum leikjum sem töpuðust en aftur á móti vorum við heppnir og enduðum þá í silfursæti. Markahlutfallið sýnir til dæmis að við stóðum okkur ágætlega á heildina litið og 5. sætið gefur ekki alveg rétta mynd af því. Ég man ekki eftir því að lokastaðan í riðli hafi verið jafn opinn fyrir lokaumferðina og að þessu sinni,“ sagði Birkir Árnason.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert