Stórslys ef Ísland fer ekki á EM

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu.
Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu. Ómar Óskarsson

Eftir að dregið var í riðla fyrir Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu í Nyon í Sviss í gær er alveg ljóst að það yrðu gífurleg vonbrigði ef íslenska landsliðinu mistækist að komast í lokakeppnina sem fram fer í Hollandi sumarið 2017.

Við skulum bara orða þetta á hreinskilnislegan hátt: Það yrði stórslys ef Ísland verður ekki á meðal þeirra sextán þjóða sem spila um Evrópumeistaratitilinn í Hollandi eftir tvö ár.

Ísland var í fyrsta skipti í efsta styrkleikaflokki fyrir dráttinn, vegna góðs árangurs í undanförnum Evrópumótum, en liðið komst í átta liða úrslitin í Svíþjóð fyrir tveimur árum. Þar með lá þegar fyrir að liðið myndi losna við mörg af bestu liðum Evrópu í undankeppninni.

Að auki er liðum í lokakeppninni fjölgað úr 12 í 16 þannig að nú dugir í fyrsta skipti að enda í öðru sæti síns riðils til að komast í lokakeppnina. Með þeirri undantekningu þó að tvö lið með lakastan árangur í öðru sæti fara í umspil um eitt EM-sæti.

Til að gera langa sögu stutta þýðir þetta í raun að ef Ísland vinnur leiki sína gegn Hvíta-Rússlandi, Slóveníu og Makedóníu, heima og heiman, er sæti í lokakeppninni nánast tryggt. Sama hvernig fer í leikjunum tveimur gegn Skotum, sem eru með hörkulið eins og íslensku landsliðskonurnar hafa fengið að kynnast í vináttulandsleikjum á síðustu árum.

Skotland hefur aldrei komist í lokakeppni stórmóts en verið nálægt því í nokkur skipti. Sennilega eiga Skotar í dag sitt besta lið frá upphafi. Það er einu sæti á eftir Íslandi á heimslista FIFA. Skotar komust áfram í síðustu undankeppni HM og fóru í umspil í haust um sæti í lokakeppinni í Kanada. Skotar töpuðu þar 1:2 og 0:2 fyrir Hollendingum.

Skotar voru líka í umspili fyrir sæti á EM í Svíþjóð 2013 en töpuðu þar fyrir Spánverjum eftir mikla dramatík í seinni leiknum í Madríd þar sem Spánn skoraði sigurmarkið, 3:2, í uppbótartíma framlengingar.

Svo er rétt að minna á að Skotar unnu Íslendinga 3:2 í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum í júní 2013, og að stór hluti landsliðsins kemur frá meistaraliðinu Glasgow City sem hefur náð góðum árangri í Meistaradeild Evrópu síðustu ár.

Lesa má fréttaskýringu Víðis Sigurðssonar í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert