Íþróttahugsjónin lifir góðu lífi

Vilhelm Sigurjónsson var ánægður með skot sitt í keilukeppni leikanna.
Vilhelm Sigurjónsson var ánægður með skot sitt í keilukeppni leikanna. Ljósmynd / Gunnar Valgeirsson

Keppni á Alþjóðaleikum Special Olympics í Los Angeles hefur haldið ótrauð áfram þessa vikuna og hafa íslensku keppendurnir verið iðnir. Stór hluti keppninnar fyrr í vikunni fór í að „flokka” einstaklinga og lið í styrkleikaflokka fyrir keppnina seinnipartinn á leikunum. Þetta gefur keppendum þá tækifæri á að eigast við jafningja sína í keppni og eykst með því eftivænting viðstaddra.

Eins og fram kemur á heimasíðu Íþróttasambands Fatlaðra, hefur Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, auk Lárusar Blöndal og Steinunnar Guðmundsdóttir, forseta og varaforseta ÍSÍ, fylgst grannt með keppni íþróttafólksins fyrstu vikuna hér. Þau hafa einnig verið viðstödd ýmsa sérburði sem fara fram samtímis leikunum, þar á meðal Healthy Athletes Program svokallaða sem er alhliða heilsuáætlun tengd leikunum. Þar geta keppendur farið í ýmiskonar heilsuskoðanir sem ekki eru allsstaðar í boði.

Vilhelm Sigurjónsson vann til gullverðlauna - og bocca í gær og þar var keppt af sömu leikgleði
og í hefðbundnari ólympíugreinum. Sem fyrr var góður stuðningur við íslensku keppendurna og samvinna fararstjóra og þjálfara liðsins er til fyrirmyndar. Keppendur liðsins frá Íslandi fá sannarlega því góðan stuðning af öllum þeim sem styðja við þá á einn eða annan hátt.

Á forsíðu Kaliforníuhluta Los Angeles Times, stórblaði borgarinnar, í gær var frétt blaðakonu um aðbúnað á meiddum keppendum. Þar er mynd af Jakobi Lárussyni, knattspyrnukappa, í meðferð sjúkraþjálfara og lækna UCLA háskólans þar sem hann beið sallarólegur eftir útkomu röntgenmynda af bólgnum ökkla sínum.

Knattspyrnukeppni leikanna fór fram á keppnisvelli háskólans. Í grein sem fjallar annars um skipulagningu á læknisþjónustunni við meidda keppendur, er mál Jakobs sérstaklega tekið fyrir, en eftir leik liðsins við England fyrr ívikunni sýndi Jakob af sér mikla hörku með því að haltra þvert yfir völlinn svo hann gæti verið með á liðsmynd sem birt verður í Morgunblaðinu á miðvikudaginn.

Það eina sem skein úr andliti Jakobs var ánægja, þrátt fyrir að ökklinn væri illa leikinn eftir ruddalega tæklingu eins enska leikmannsins. Í viðtali við þjálfara liðsins í gær komst ég að því að
Jakob náði sér nógu vel af meiðslum sínu og hann lék að nýju með liðinu ígær gegn Baharat frá Indlandi.

Lesendur geta annars fundið slóðann af grein blaðsins hérÁ þessari vefsíðu má einnig sjá góða myndsyrpu af keppninni hér í Los Angeles.

Saga Jakobs er annars einkennandi fyrir flesta keppendur á þessum leikum. Það skiptir litlu hvaða íþrótt talað er um, hinn sanni íþróttaandi skín úr andlitum þessara keppenda. Þeir eru óhræddir við að sýna gleði sína, hvort sem sigur vinnst eða ekki. Maður sér keppanda í öðru sæti óskasigurvegaranum strax til hamingju, einn sundkappann hjálpa öðrum úr lauginni, og allir samgleðjast mótherjum sínum að lokinni keppni. Það er einfaldlega hluti af keppninni, ekki aðeins hugmynd sem fólk segist fara eftir.

Vissulega er þónokkur styrkleikamunur á keppendum og augljóst er að oft er það mikil raun fyrir marga þeirra að komast í endamark eða að klára leik, sýnilega ekki nálægt eins góðir og margir mótherjarnir. Það skiptir litlu máli í keppni þessa íþróttafólks. Þegar í mark er komið eru allir faðmaðir jafnt og þá fljúga allar hugsanir um meðaumkun út um gluggann.

Að sjá íþróttafólkið keppa í vikunni á þessum aljóðaleikum sýnir meira en nokkuð annað hversu langt frá íþróttahugsjóninni sjálfri flestir aðrir íþróttakeppendur eru.

Á næstsíðasta keppnisdeginum í dag keppir íslenska íþróttafólkið m.a. í frjálsum íþróttum, sundi, badminton, kraftlyftingum, fimleikum, og knattspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert