Unglingalandsmótið sett í gærkvöldi

Liðsmenn UFA marsera inn á völlinn í setningaathöfninni í gærkvöldi.
Liðsmenn UFA marsera inn á völlinn í setningaathöfninni í gærkvöldi. mbl.is / Gunnar Gunnarsson

Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands var sett í átjánda sinn í gærkvöldi á Þórsvelli á Akureyri að viðstöddu fjölmenni. Þátttakendur gengu fylktu liði inn á leikvanginn, en þátttakendur hafa aldrei verið fleiri á Unglingalandsmóti UMFÍ.

Keppendur á mótinu eru á þriðja þúsund sem er metþátttaka eins og áður segir. Flestir keppendur eru í knattspyrnu eða alls 1235. Næst flestir eru keppendur í frjálsum íþróttum, alls 603 og í körfuknattleik eru keppendur 553. Þá má nefna að keppendur í strandblaki eru 221 og í tölvuleik eru þátttakendur 134.

Nokkuð er um nýjar keppnisgreinar á borð við hjólreiðar, pílukast og boccia svo eitthvað sé nefnt. Í þessum greinum er þátttakan með ágætum.

Hafdís Sigurðardóttir frjálsíþróttakona úr Ungmennafélagi Akureyrar hljóp með kyndilinn og lét hann síðan í hendur ungra íþróttamanna sem tendruðu eldinn að lokum. Akureyringurinn og hlaupamaðurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson var fánaberi setningarathafnarinnar.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, setti Unglingalandsmótið og þakkaði framkvæmdaaðilum fyrir vel unnin störf. Helga Guðrún tilkynnti það jafnframt að Unglingalandsmótið 2018 yrði haldið í Þorlákshöfn. Mótið 2016 verður í Borgarnesi og 2017 á Egilsstöðum. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, flutti einnig ávarp á setningunni.

Unglingalandsmótið hófst á fimmtudaginn með keppni í golfi sem lauk svo í gær. Keppni í knattspyrnu, körfuknattleik, frjálsum íþróttum og pílukasti hófst svo í gær og heldur áfram í dag. Þá hefjast fleiri keppnisgreinar í dag og heldur keppni svo áfram alla helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert