„Hélt að ég hefði slitið allt“

Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. mbl.is/Kristinn

Ásdís Hjálmsdóttir og Aníta Hinriksdóttir, fulltrúar Íslands á HM í frjálsum íþróttum í Peking, lentu í kínversku höfuðborginni á fimmtudagsmorgun eftir langt ferðalag.

Aníta keppir í undanriðli 800 metra hlaups aðfaranótt miðvikudags kl. 2.25, en Ásdís í undankeppni spjótkasts í hádeginu á föstudag.

„Við ákváðum að koma hingað aðeins fyrr og jafna okkur á tímamismuninum og núna snýst þetta bara um léttar æfingar og að vera ferskur og tilbúinn þegar að keppninni kemur,“ sagði Ásdís. Hefur tímabilið og aðdragandi mótsins verið eins og hún hefði kosið?

„Ég var ótrúlega óheppin í vetur [innsk.: handarbrotnaði í febrúar] en kom svo út í vorið og kastaði mjög vel, og náði þá HM-lágmarkinu. Síðan tók ég æfingatímabil um mitt sumarið og lenti í smáslysi, sem tók sinn tíma að jafna sig á,“ sagði Ásdís. Umrætt slys varð á kastæfingu í byrjun júlí þegar hún rann illa til og sneri af miklum þunga upp á vinstra hnéð

„Ég hélt að ég hefði slitið allt í hnénu,“ sagði Ásdís alvarleg. „Ég fór öskrandi í jörðina, það stoppuðu allir í kringum mig, og hélt að þetta væri bara mitt síðasta kast. Það fór hins vegar betur en á horfðist, og þarna kom sér vel að vera með þessa stóru og sterku vöðva í kringum hnéð. Þeir tóku allt höggið af liðböndunum en það kom svakalegur sársauki þegar þetta gerðist,“ sagði Ásdís, sem átti erfitt með að treysta hnénu, ef svo má segja, næstu vikur á eftir.

Sjá allt viðalið við Ásdísi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert