Bolt heimsmeistari í 200 metra hlaupi

Usain Bolt fagnar hér heimsmeistaratitlinum í 200 metra hlaupi.
Usain Bolt fagnar hér heimsmeistaratitlinum í 200 metra hlaupi. AFP

Jamaíkamaðurinn Usain Bolt varð rétt í þessu heimsmeistari í 200 metra hlaupi, en hann hljóp á 19,55 sekúndum sem er besti tími ársins.

Bandaríkjamaðurinn Justin Gaitlin varð annar í hlaupinu á 19,74 sekúndum.

Usain Bolt og Justin Gaitlin byrjuðu hlaupið báðir vel, en Bolt var þó á undan Gaitlin upp úr blokkunum.

Gaitlin náði að halda í við Bolt í fyrra hluta hlaupsins og þeir voru um það bil jafnir þegar hlaupið var hálfnað.

Bolt náði hins vegar afgerandi forystu í hlaupinu í seinni hluta hlaupsins og tryggði sér að lokum nokkuð öruggan sigur.

Suður-Afríkumaðurinn Anaso Jobodwana bætti landsmetið í 200 metra hlaupi og tryggði sér bronsverðlaun með því að hlaupa á 19,87 sekúndum. 

Þetta eru önnur gullverðlaun Usain Bolt á heimsmeistaramótinu, en hann hafði áður tryggt sér sigur í 100 metra hlaupi. Þá eru þetta tíundu gullverðlaun Usain Bolt á heimsmeistaramóti. 

Heimsmet hins fótfráa Jamaíkumanns, Usain Bolt í greininni er 19,19, en það met setti hann í ágúst árið 2009.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert