Ásdís komst ekki í úrslitin á HM

Ásdís Hjálmsdóttir
Ásdís Hjálmsdóttir Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir var nú rétt í þessu að ljúka keppni á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Peking. Ásdís kastaði lengst 56,72 metra í undankeppni spjótkastsins sem dugði ekki til að tryggja sér sæti í tólf manna úrslitum.

32 keppendur voru skráðir til leiks í forkeppninni þar sem keppt var í tveimur riðlum og fengu keppendur þrjú köst. Ásdís kastaði 56,72 metra í fyrstu umferð en gerði ógilt í næstu umferð. Það var því allt undir í þriðja og síðasta kasti, en það kast var einnig ógilt.

Kasta þurfti 63,50 metra til þess að komast beint í úrslit. Alls náðu átta keppendur að tryggja sig beint í úrslitin en til þess að komast inn hefði Ásdís þurft að kasta 62,22 metra til að komast í úrslit. Hún hefur lengst kastað 62,17 metra í ár en Íslandsmet hennar er 62,77 metrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert