Júlían heimsmeistari í kraftlyftingum

Júlían J. K. Jóhannsson á verðlaunapallinum í Prag í dag.
Júlían J. K. Jóhannsson á verðlaunapallinum í Prag í dag. Ljósmynd/Skjáskot

Júlían J. K. Jóhannsson varð í dag heimsmeistari unglinga í kraftlyftingum, í +120 kg flokki, á heimsmeistaramótinu í Prag í Tékklandi.

Júlían hefur áður orðið heimsmeistari í réttstöðulyftu en landaði nú stóra titlinum. Í kraftlyftingum er keppt í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu, og þyngdin svo lögð saman. Júlían lyfti 375 kg í hnébeygju, 285 í bekkpressu og 352,5 kg í réttstöðulyftu, eða samtals 1012,5 kg. Hann bætti sig þar með um 20 kg og vann sigur eins og áður segir. Sigur Júlíans var öruggur en Stephen King frá Bandaríkjunum varð í 2. sæti og lyfti samtals 960 kg.

Júlían fékk einnig gullverðlaun í hnébeygju og réttstöðulyftu, og silfurverðlaun í bekkpressu.

Guðfinnur Snær Magnússon úr Breiðabliki vann silfurverðlaun í -120 kg flokki drengja. Hann lyfti 290+200+250 kg, eða samtals 740 kg. Hann fékk auk þess silfur í hnébeygju og bekkpressu og setti drengjamet í bekkpressu með 200 kg lyftunni.

Viktor Samúelsson úr KFA vann til bronsverðlauna í -120 kg flokki unglinga. Hann lyfti 357,5+292,5+315 eða 965 kg alls.

Loks fékk Þorbergur Guðmundsson silfurverðlaun í réttstöðulyftu og hafnaði í 4. sæti í samanlögðu í +120 kg flokki, en hann lyfti samtals 875 kg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert