Geymir hraustur líkami ávallt heilbrigða sál?

Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskir atvinnumenn í boltagreinum mælast nær sjúklingum í meðferð heldur en almenningi þegar kemur að kvíða samkvæmt rannsókn sem gerð var vegna lokaverkefnis í Háskólanum í Reykjavík. Er þetta meðal þess sem fram kemur í fréttaskýringu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Þar er rætt við sálfræðingana Hafrúnu Kristjánsdóttur, Einar Gylfa Jónsson og Hauk Inga Guðnason sem öll hafa starfað með íslensku afreksíþróttafólki. 

Rannsóknin sem um ræðir var gerð af Margréti Láru Viðarsdóttur en 123 íslenskir atvinnumenn í boltagreinum, 18 ára og eldri af báðum kynjum, fengu spurningar og skiluðu 108 þeirra inn svörum. 

„23% skora það hátt á kvíðakvarða að ástæða sé til þess að grípa inn í og 6,5% á þunglyndiskvarða,“ sagði Hafrún meðal annars í Morgunblaðinu í dag en hún er sviðsstjóri Íþróttasviðs HR. 

Þau Hafrún, Einar og Haukur eru öll sammála um að ýmislegt í umhverfi afreksíþróttafólks ýti undir kvíða og nefna nokkra þætti eins til dæmis kröfuna um árangur, áreiti frá ýmsum aðilum eins og áhorfendum, fjölmiðlum og fólki á samskiptamiðlum og skakkaföll eins og meiðsli. 

Fréttaskýringuna um andlega líðan íþróttafólks er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert