Tólf mánaða helvíti á jörð

Paula Radcliffe
Paula Radcliffe AFP

Heimsmethafinn í maraþonhlaupi kvenna, Paula Radcliffe, segist hafa gengið í gegnum tólf mánaða helvítisvist eftir að hún var bendluð við lyfjamisferli.

Radcliffe, er bresk en hún hætti keppni eftir að hafa tekið þátt í maraþoninu í London fyrr á árinu. Í september neitaði hún því opinberlega að hafa neytt ólöglegra lyfa eftir að hafa komið fyrir breska þingnefnd þar sem hún þurfti að svara spurningum varðandi lyfjanotkun. Þá var ár liðið frá því sprengjunni var varpað um að hún hefði neytt ólöglegra lyfja.

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, greindi formlega frá því í síðustu viku að ekkert væri hæft í því að Radcliffe hefði misnotað lyf og að sú framkoma sem hlaupadrottningin hefði mætt væri svo sannarlega til skammar. 

„Ég hef þurft að þola tólf mánaða helvíti,“ segir Radcliffe, sem er 41 árs að aldri, í viðtali við Mail on Sunday í dag.

Hún segir að allt heimilið hafi verið undir og börnin ekki fengið frið. Síminn hafi hringt stöðugt , öll fjölskyldufrí hafi orðið að engu þar sem hún og eiginmaður hennar, faðir þeirra, hafi verið upptekin á fundum með lögmönnum. Radcliffe, sem er með asma hefur barist ötullega gegn lyfjanotkun íþróttamanna. Hún er gift þjálfara sínum Gary Lough og þau eiga tvö börn.

„Ég hef aldrei áður verið í þeirri stöðu að hafa ekki gert neitt rangt en að fólk telji að þú sért sek,“ segir hún. 

„Ég hefi fengið bréf frá tíu ólíkum einstaklingum sem hafa næstum því framið sjálfsvíg vegna þess að þeir hafa verið sakaðir um eitthvað sem þeir hafa ekki gert.“

Radcliffe, sem í þrígang fór með sigur af hólmi í maraþoninu í London, gagnrýnir einnig Alþjóðalyfjaeftirlitið, WADA og breska lyfjaeftirlitið fyrir að ganga ekki fram fyrir skjöldu og verja hana.

„Ég var mjög reið út í WADA og breska lyfjaeftirlitið yfir það hvernig tekið var á málinu,“ segir Ratcliffe í viðtalinu.

„Þegar þetta var tekið upp af sérstakri þingnefnd þá höfðu þau frábært tækifæri til þess að segja að það hafi aldrei verið nein spurning varðandi sýni úr breskum frjálsíþróttamönnum.“ „Eða“ bætir hún við „Ef þau ætluðu ekki að verja mig þá hefðu þau átt að bjóða mér svo ég gæti varið mig sjálf. Ég get útskýrt niðurstöður úr blóðrannsókninni en það bauð mér enginn að gera það.“

Heimsmet Radcliffe er frá árinu 2003 er hún hljóp maraþonið í London á tímanum 2:15:25. Þar bætti hún eigið heimsmet, frá árinu 2002 sem hún setti í Chicago-maraþonhlaupinu. Þá hljóp hún á tímanum 2:17:18.

Viðtalið í heild

Paula Radcliffe
Paula Radcliffe AFP
Paula Radcliffe
Paula Radcliffe Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert