Eygló nokkuð frá Íslandsmeti sínu

Eygló Ósk Gústafsdóttir við bakkann á EM í Ísrael fyrr …
Eygló Ósk Gústafsdóttir við bakkann á EM í Ísrael fyrr í mánuðinum. Ljósmynd/Giorgio Perottino

Eygló Ósk Gústafsdóttir var nú rétt í þessu að koma í bakkann í 200 metra baksundi í Indiana í Bandaríkjunum, en þar fer nú fram Einvígið í lauginni á milli úrvalsliða Evrópu og Bandaríkjanna í 25 metra laug.

Eygló Ósk synti á fimmtu braut af sex og kom í bakkann á tímanum 2:06,01 mínútum en Íslandsmet hennar frá EM í Ísrael fyrr í mánuðinum er 2:03,53 mínútur. Eygló hafnaði í sjötta sæti af jafnmörgum keppendum í greininni, en sigurvegarinn varð liðsfélagi Eyglóar í Evrópuliðinu, hin ungverska Katinka Hosszu. Sigurtími hennar var 1:59,75 mínútur en hún á heimsmetið í greininni og varð Evrópumeistari í Ísrael fyrr í mánuðinum þar sem Eygló hafnaði í þriðja sæti.

Eygló varð með þessu fyrsti fulltrúi Íslands til þess að taka þátt í einvíginu, en Hrafnhildur Lúthersdóttir syndir í 200 metra bringusundi síðar í nótt. Hrafnhildur keppir svo einnig í 100 metra baksundi á morgun.

Keppt er í 12 einstaklingsgreinum hjá hvoru kyni og eru níu stig í boði fyrir hverja þeirra; fimm stig fyrir sigur, þrjú fyrir silfur og eitt fyrir brons. Bandaríkin hafa alltaf fagnað sigri í einvíginu síðan það hófst árið 2003, fyrst við Ástralíu og síðar Evrópu frá 2009, en keppnin er haldin á tveggja ára fresti.

200 metra baksund kvenna var fimmta grein keppninnar og staðan að henni lokinni er 29:16 fyrir Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert