Edda og Katrín í 9. sæti

Edda Kristín Óttarsdóttir og Kartín Ingunn Björnsdóttir.
Edda Kristín Óttarsdóttir og Kartín Ingunn Björnsdóttir. Ljósmynd / Karatesamband Íslands

Á öðrum degi Evrópumeistaramóti unglinga og U21 í karate sem fer fram í Limassol, Kýpur, átti Ísland þrjá keppendur. Edda Kristín Óttarsdóttir keppti í kumite kvenna junior -59kg, Katrín Ingunn Björnsdóttir keppti í kumite kvenna junior +59kg og Máni Karl Guðmundsson sem keppti í kumite junior -61kg.

Edda Kristín lenti á móti Gwendoline Philippe frá Frakklandi í fyrstu umferð, sú franska vann 3-0 sem og næstu 4 bardaga og vann sigur að lokum og er því Evrópumeistari í kumite junior -59kg.  Edda Kristín fékk því uppreisn og rétt til að keppa um 3ja sætið. Edda Kristín lenti á móti Tamari Turmanidze í fyrstu viðureign, Tamari vann viðureignina 2-0 og því endaði Edda Kristín í 9. sæti í sínum flokki.

Máni Karl lenti á móti Stefan Ilic frá Bosníu-Hersegovina, Stefan vann viðureignina 3-0, en þar sem Stefan datt úr í næstu umferð þá átti Máni Karl ekki möguleika á uppreisn.

Katrín Ingunn fékk Lea Avazeri frá Frakklandi í fyrstu umferð. Bardaginn var mjög jafn og endaði 0-0, þeirri frönsku var svo dæmdur sigur eftir dómaraúrskurð og fór því í 2.umferð. Lea vann einnig næstu 4 bardaga, endaði sem Evrópumeistari í kumite junior +59kg, því fékk Katrín Ingunn uppreisn.  Í fyrstu viðureign í uppreisn mætti Katrín Ingunn Lucija Lesjak frá Króatíu. Lucija reyndist ofjarl Katrínar því hún lagði hana 7-0 og endaði Katrín Ingunn í 9.sæti í sínum flokki.

Á morgun mun svo Ólafur Engilbert keppa í kumite karla U21 -75kg flokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert