Guðni setti Íslandsmet í kringlukasti

Guðni Valur Guðnason æfir kringlukast á kastvelli í Laugardal við …
Guðni Valur Guðnason æfir kringlukast á kastvelli í Laugardal við kaldar aðstæður fyrr í vetur. Ljósmynd/Pétur Guðmundsson

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason úr ÍR setti Íslandsmet innanhúss þegar hann kastaði 58,59 metra á sínu fyrsta alþjóðlega boðsmóti í frjálsum íþróttum en mótið fór fram í Botnia í Finnlandi í gær.

Árangurinn dugði til annars sætis en Svíinn Daniel Stal sem Vésteinn Hafsteinsson þjálfar bar sigur úr býtum.

Þessi árangur Guðna Vals lofar góðu fyrir sumarið en hann undirbýr sig nú af kappi fyrir Evrópumeistaramótið sem verður í Amsterdam í júlí en hann hefur náð lágmarki á það nú þegar. Guðni Valur keppti einnig í kúluvarpi sem er aukagrein hjá honum og bætti hann sig í 17,17 m og hafnaði í 4. sæti. Kúlan vannst á 18,71 m og var það Finninn Timo Kööpikka sem kastaði það.

Næstu helgi mun Guðni Valur keppa á öðru innanhúsmóti í kringlukasti í Vaxjö í Svíþjóð og verður gaman að sjá hvort honum takist að færa hið nýja Íslandsmet yfir 60 metra múrinn.

Innanhússkringlukast er að færast í aukana og er kastað inni í íþróttahöllum sem eru lagðar gervigrasi með kurli í og notast fyrir fótbolta og annað. Það verður að teljast frábær viðbót fyrir kringlukastara enda lengir þetta keppnistímabil þeirra verulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert