Ynjurnar skoruðu sextán

Diljá Björgvinsdóttir, til vinstri, skoraði eitt marka Ynja.
Diljá Björgvinsdóttir, til vinstri, skoraði eitt marka Ynja. mbl.is/Golli

Ynjur Skautafélags Akureyrar unnu stórsigur á Skautafélagi Reykjavíkur, 16:1, þegar liðin mættust í Hertz-deild kvenna í íshokkí á Akureyri í gær.

Það tók Ynjurnar 17 mínútur að skora en þær gerðu þá þrjú mörk á stuttum tíma og staðan var 3:0 eftir fyrsta leikhluta. Þær gerðu sex mörk gegn einu í öðrum hluta og bættu við sjö mörkum í þeim þriðja.

Kolbrún Garðarsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Ynjur, Silvía Björgvinsdóttir fjögur, Berglind Leifsdóttir 2, Sunna Björgvinsdóttir 2, Diljá Björgvinsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Ragnhildur Kjartansdóttir eitt hver en Alexandra Hafsteinsdóttir skoraði fyrir SR.

Þegar þremur leikjum af deildinni er ólokið eru Ásynjur með 32 stig, Ynjur 30, Björninn 12 og SR eitt stig. Til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn leikur SA, sem þá er sameiginlegt lið Ásynja og Ynja,  gegn Birninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert