Keilutímabilinu lauk í gær

Í gær lauk úrslitakeppninni á Íslandsmóti liða í keilu. Til að hampa Íslandsmeistaratitlinum þarf 21,5 stig í úrslitakeppninni og eru þrjár umferðir í það mesta spilaðar til að ná því, 14 stig eru í boði í hverri umferð.

Í karlaflokki sigraði lið ÍR PLS en þeir sigruðu lið Keilufélags Reykjavíkur (KFR) Lærlinga með 23,5 stigum gegn 12,5. Í kvennaflokki sigruðu KFR Valkyrjur en þær kepptu við lið ÍR Buff. Valkyrjur sigruðu örugglega í tveim umferðum samtals 22 stig gegn 6.

Í úrslitakeppninni spilaði Guðlaugur Valgeirsson í KFR Lærlingum hvað best en hann náði m.a. 771 seríu, 3 keiluleikir, í 2. umferð sem gerir 257,0 í meðaltal og var hann alls með 241,0 í meðaltal í úrslitum þar af 279 leik. Hjá konunum var það Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR Valkyrjum sem spilaði hvað best en hún var með 207,83 í meðaltal þar af 269 leik.

Þar með er keppni í keilu lokið tímabilið 2015 til 2016 og hefst næsta tímabil í byrjun september í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert