Fá Sif og Rúnar félagsskap?

Irina Sazonova gerir tilkalla til Norðurlandameistaratitils.
Irina Sazonova gerir tilkalla til Norðurlandameistaratitils. mbl.is/Árni Sæberg

Sif Pálsdóttir og Rúnar Alexandersson geta státað sig af því að vera einu Íslendingarnir sem orðið hafa Norðurlandameistarar í áhaldafimleikum, þegar horft er til fjölþrautar fullorðinna. Nú um helgina gæti það breyst, þegar Norðurlandamótið fer fram í Laugabóli Ármanns í Laugardal.

Keppt er í fullorðins- og unglingaflokki karla og kvenna. Á morgun kl. 10 hefst liðakeppni og fjölþraut unglinga og kl. 15 er liðakeppni og fjölþraut fullorðinna. Fimm keppendur eru í hverju liði og geta þeir keppt á öllum áhöldum. Þeir keppast um að ná inn í úrslit á einstökum áhöldum, sem fram fara á sunnudaginn, og auðvitað að ná sem bestum árangri í fjölþraut, þ.e.a.s. þeir eða þær sem keppa á öllum áhöldum. Einkunn þriggja bestu á hverju áhaldi telur svo í liðakeppninni, og því má segja að keppnin á morgun sé þríþætt.

Rúnar Alexandersson varð Norðurlandameistari í fjölþraut árið 2000 og Sif Pálsdóttir fyrst íslenskra kvenna árið 2006. Nú má gera sér vonir um að Irina Sazonova bætist í hópinn en hún mun fá harða keppni. Hin sænska Emma Larsson verður meðal keppenda en þær Irina eru einu fimleikakonur Norðurlandanna sem fara á Ólympíuleikana í Ríó. Þegar þær kepptu í forkeppni Ólympíuleikanna fyrir hálfum mánuði stóð Irina sig betur og fékk 52,931 í einkunn, en Emma fékk 51,499. Á HM í Glasgow í vetur fékk Irina 50,398 í einkunn.

Gullverðlaun á góðum degi?

Íslenski hópurinn gerir sér einnig vonir um fyrsta Norðurlandameistaratitilinn í liðakeppni fullorðinna, því kvennaliðið nú er mjög sterkt. Kvennalandsliðið varð í 2. sæti árið 2010 og 3. sæti árið 2014, en til að ná titlinum þarf Ísland að hafa betur gegn Emmu og félögum í sænska liðinu.

Fríða Rún Einarsdóttir með gullverðlaunapeninga sína eftir að hafa orðið …
Fríða Rún Einarsdóttir með gullverðlaunapeninga sína eftir að hafa orðið sexfaldur Norðurlandameistari unglinga árið 2007. Hún vann fjölþrautina, á öllum fjórum áhöldunum, og í liðakeppninni með Íslandi. Ísland hefur aldrei unnið liðakeppni fullorðinna. mbl.is/Kristinn

„Við erum að vonast til að geta barist um gullverðlaunin í liðakeppni kvenna, á góðum degi,“ sagði Sandra Dögg Árnadóttir, annar þjálfara kvenna- og stúlknalandsliðsins. „Svíþjóð hefur haft nokkra yfirburði á Norðurlöndum og þar hafa verið settir miklir peningar í ólympíustarfið. Svíar ætluðu að komast með lið á Ólympíuleikana, en það mistókst, meðal annars vegna meiðsla. Það yrði mjög merkilegt fyrir okkur að ná að vinna þær, og við teljum það raunhæft núna,“ sagði Sandra, sem vonast að sjálfsögðu til að heimavöllurinn og meðfylgjandi stuðningur hjálpi Íslandi:

„Peningarnir eru líka af skornum skammti þannig að við tökum aldrei með okkur varamenn út. Núna getum við unnið með varamenn, og erum líka með fleiri þjálfara á hverri æfingu. Hver stelpa er með sinn persónulega þjálfara með sér. Við vonum að heimavöllurinn hjálpi.“

Afrek Fríðu seint leikið eftir

Þó að Ísland hafi aldrei unnið liðakeppni fullorðinna þá varð unglingalandslið kvenna Norðurlandameistari árið 2007, með Fríðu Rún Einarsdóttur fremsta í flokki en hún varð Norðurlandameistari í fjölþraut og á öllum fjórum áhöldunum. Það afrek verður seint leikið eftir en Ísland er með spennandi unglingalandslið nú, bæði í karla- og kvennaflokki, og verður athyglisvert að sjá Margréti Leu Kristinsdóttur reyna sig í fjölþrautinni gegn öðrum bestu unglingum Norðurlandanna. Róbert Kristmannsson, landsliðsþjálfari karla, segir hægt að vonast til þess að strákalandsliðið komist í verðlaunasæti. Þá geti liðsmenn karlalandsliðsins vel keppt um verðlaun á einstökum áhöldum, ekki síst Valgarð Reinhardsson sem kemur til landsins frá Kanada þar sem hann æfir og keppir.

Íslensku liðin á Norðurlandamótinu

Landslið kvenna

Agnes Suto, Gerplu

Dominiqua Alma Belányi, Ármanni

Irina Sazonova, Ármanni

Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir, Björk

Tinna Óðinsdóttir, Björk

Varamenn:

Andrea Ingibjörg Orradóttir, Björk

Norma Dögg Róbertsdóttir, Björk

Unglingalið kvenna

Fjóla Rún Þorsteinsdóttir, Fylki

Katharina Sibylla Jóhannesdóttir, Fylki

Margrét Lea Kristinsdóttir, Björk

Sonja Margrét Ólafsdóttir, Gerplu

Thelma Rún Guðjónsdóttir, Fylki

Vigdís Pálmadóttir, Björk

Landslið karla

Jón Sigurður Gunnarsson, Ármanni

Hróbjartur Pálmar Hilmarsson, Gerplu

Valgarð Reinhardsson, Gerplu

Hrannar Jónsson, Gerplu

Arnþór Daði Jónasson, Gerplu

Varamenn:

Sigurður Andrés Sigurðarson, Ármanni

Guðjón Bjarki Hildarson, Gerplu

Unglingalið karla

Martin Bjarni Guðmundsson, Gerplu

Breki Snorrason, Björk

Aron Freyr Axelsson, Ármanni

Jónas Ingi Þórisson, Ármanni

Atli Þórður Jónsson, Gerplu

Varamenn:

Hafþór Hreiðar Birgisson, Gerplu

Leó Björnsson, Gerplu

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert