Stritað með viti í sundlaugunum

Hrafnhildur Lúthersdóttir stingur sér til sunds.
Hrafnhildur Lúthersdóttir stingur sér til sunds. mbl.is/Árni Sæberg

Ófáir íþróttaáhugamenn spyrja sig væntanlega þeirrar spurningar hvað sé að gerast í sundíþróttinni á Íslandi? Hvers vegna eru Íslendingar skyndilega orðnir jafn góðir á alþjóðlegum mælikvarða og raun ber vitni?

Að loknu Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug í London kemur Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH heim með þrenn verðlaun. Auk þess komust Eygló Ósk Gústafsdóttir og Anton Sveinn McKee, bæði úr Ægi, tvívegis í úrslit hvort um sig. Þrátt fyrir að Örn Arnarson eigi ennþá besta árangur Íslendings í sundi ófatlaðra, þá er sú staða ný af nálinni að nokkrir Íslendingar séu framarlega á alþjóðavettvangi á sama tíma.

Segja má að framfarirnar hafi orðið áþreifanlegar í fyrra þegar Eygló og Hrafnhildur komust báðar í úrslit á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Rússlandi. Hrafnhildur náði þar 6. sæti og Eygló setti fyrst íslenskra kvenna Norðurlandamet hjá ófötluðum. Til samanburðar má nefna að enginn úr íslenska hópnum komst í undanúrslit á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Þar kepptu þau til að mynda þau Hrafnhildur, Eygló og Anton en þau síðarnefndu voru reyndar býsna ung að árum. Engu að síður er gríðarlega mikill munur á því að komast ekki í 16-manna undanúrslit á stórmóti og að vera í 8-manna úrslitum.

Eðvarð Þór Eðvarðsson, Ragnheiður Runólfsdóttir og Örn Arnarson voru þau einu sem komist höfðu í úrslit á HM og EM í 50 metra laug fram að því. Við þetta má bæta að Jón Margeir Sverrisson úr Fjölni er í fremstu röð í heiminum í skriðsundi í sínum flokki, S14.

Morgunblaðið leitaði álits hjá þeim Ragnheiði og Eðvarði á þessum árangri íslenska sundfólksins í London. Bæði hafa þau hlotið sæmdarheitið Íþróttamaður ársins fyrir afrek sín í lauginni en hafa auk þess þjálfað sund hérlendis nánast allar götur síðan. Ragnheiður þjálfar á Akureyri og Eðvarð í Reykjanesbæ.

Sjá fréttaskýringuna í heild þar sem rætt er við Ragnheiði og Eðvarð í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert