Nadal dregur sig úr keppni

Rafael Nadal tilkynnir það á blaðamannafundi að hann geti ekki …
Rafael Nadal tilkynnir það á blaðamannafundi að hann geti ekki tekið þátt í Opna franska meistaramótinu. AFP

Spænski tennisspilarinn Rafael Nadal hefur neyðst til þess að draga sig úr keppni á Opna franska meistaramótinu í tennis sem fram fer þessa dagana. Nadal sem er sigursælastur á mótinu frá upphafi mun því ekki bæta tíunda sigrinum á mótinu í safnið. 

Ástæðan er sú að Nadal glímir við meiðsli í úlnlið sem gera það að verkum að hann getur ekki spilað meira á mótinu. Nadal bar sigur úr býtum gegn Facundo Bagnis í þriðju umferð mótsins, en í þeim leik fann hann fyrir verk í úlnliðnum. 

„Ég fann fyrir verk í leiknum í gær, en harkaði hins vegar af mér. Um kvöldið ágerðist verkurinn síðan og í dag gat ég ekki hreyft úlnliðinn. Af þeim sökum verð ég að draga mig úr keppni,“ sagði Nadal á blaðamannafundi í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert