Flugfélagið týndi stöngunum

Ashley Bryant.
Ashley Bryant.

Breski tugþrautarkappinn Ashley Bryant þurfti að fá lánaðar stangir fyrir stangarstökk á Hypo mótinu í Götzis í Austurríki í síðustu viku, en stangirnar hans komu aldrei með flugi Swiss Air.

Lánstangirnar nýttust Bryant heldur illa, en stökk hans var 30 cm lægra en persónulegt met hans og hann var aðeins 44 stigum frá því að fá aðgöngu á Ólympíuleikana. Mótið í Götzis var afar mikilvægt fyrir Bryant því hann berst enn fyrir því að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Ríó í sumar.

„Þetta var mjög pirrandi mál. Við fengum ekki að taka stangirnar með í okkar flug, en okkur var sagt að þær færu í stærri flug daginn eftir. En stangirnar komu aldrei. Ég fékk nokkrar lánaðar frá sænskum íþróttamanni en þær eru öðruvísi en þær sem ég æfði með,“ sagði Bryant.

Bryant fékk 8056 stig á mótinu í Götzis, en Ólympíulágmarkið í tugþraut eru 8100 stig. Bryant hefur enn nokkur mót til þess að ná lágmarkinu en persónulegt met hans eru 8141 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert