EM-ævintýrið í Frakklandi

Á morgun kemur nýr dagur, eins og þar stendur. Nýr kafli verður þá skráður í skemmtilegri sögu íslenskra fótboltamanna. Að Ísland mætti Englandi í 16-liða úrslitum stórmóts karla hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar. Nú er það veruleikinn. SJÁ MYNDASYRPU FRÁ MÓTINU HINGAÐ TIL HÉR AÐ OFAN.

Bókmenntir sögueyjunnar eru mörgum útlendingum hugleiknar; Edda, Heimskringla og öll hin merku rit. Snorri Sturluson og þær kempur allar. Víkingarnir sem herjuðu, rændu og rupluðu. Íslenskir víkingar eru enn á ferð en fara nú með friði, ekki vopnaðir spjótum og öxum heldur fótboltahæfileikum, meiri en margur hugði, skipulagi, samheldni og baráttuvilja sem allir dást að.

Árangur Íslendinga vekur hvarvetna athygli. Írskur kunningi vinar míns var á ferð frá heimalandinu í frí á Lanzarote. Á miðri leið kom flugstjórinn í hátalarakerfið en skilaboðin voru ekki hefðbundin: „Ísland vann Austurríki á EM!“ Um borð voru nær eingöngu Írar á leið í sólina og þetta fannst honum skipta máli, enda Írar mikil fótboltaþjóð og þeirra menn mæta einmitt Frökkum í dag í Lyon.

Ævintýri á fótboltaför

Það hefur verið sannkallað ævintýri að fylgjast með íslenska liðinu og stuðningsmönnum þess á EM í Frakklandi. Hvernig spennan var í hámarki, en væntingar þó býsna hófstilltar hjá mörgum, fyrir fyrsta leikinn á þeim vinalega stað, Saint-Étienne. Í suðupottinum Marseille fjölgaði í hópi stuðningsmanna, samskipti við hinn almenna Ungverja voru mjög góð en þegar nær dró leik birtust vandræðamenn úr þeirra ranni og leiðindi hópsins urðu þess valdandi að margur Íslendingurinn komst ekki inn á Stade Vélodrome fyrr en nokkru eftir að flautað hafði verið til leiks. Misstu af magnaðri stund þegar Ég er kominn heim hljómaði en sumir náðu reyndar að hlýða á þjóðsönginn.

Ísland hafði forystu í viðureigninni allt þar til undir lokin og það var hálfeinkennilegt að horfa upp á þúsundir vonsvikinna Íslendinga eftir jafntefli gegn Ungverjum á fyrsta stórmóti íslenska karlalandsliðsins. Flestir náðu þó gleði sinni á ný fljótlega og það var magnað hvernig leikmenn og stuðningsmenn kættust saman eftir leik.

Ekki var síður ánægjulegt að verða vitni að því hve vel fór á með stuðningsmönnum Íslands og Austurríkis bæði fyrir og eftir leik þjóðanna í París. Ekkert vesen. Engin leiðindi.

Leikurinn var magnaður og stemmningin á lokasekúndunum og eftir að flautað var til leiksloka verður lengi í minnum höfð. Varla er hægt að lýsa henni með orðum.

Þegar höfundur þessa pistils fór frá Stade de France-leikvanginum eftir rimmuna, þegar kominn var nýr dagur í þessu mikla útlandi, stóð yfir fjörlegt partý á veitingastað þar við hliðina. Fjölmennur rauður her Austurríkismanna skemmti sér þrátt fyrir sárt tap og inn á milli sást blár Íslendingur. Þó nokkrir slíkir reyndar á svæðinu og allt í góðu.

Albert og lýsandinn heimsfrægi

Frá höfuðborginni lá leiðin aftur að Miðjarðarhafinu. Til Nice, borgarinnar góðu þar sem Albert heitinn Guðmundsson, síðar alþingismaður og ráðherra, var mjög í hávegum hafður. Þar gladdi hann bæjarbúa, eins og víðar, með tilþrifum á fótboltavellinum og varð síðar heiðursborgari. Þar er Ingi Björn sonur hans fæddur, sá mikli markaskorari. Og nú er alnafninn, Albert litli Guðmundsson, farinn að hrella markverði, og gleðja áhugamenn um leikinn fallega, í búningi PSV Eindhoven í Hollandi.

Faðir alnafnans, Gummi „okkar“ Ben, var í sviðsljósinu í borginni við Signu. Fór hamförum þar sem hann lýsti leiknum við Austurríki í Sjónvarpi Símans; ekki það að ég yrði hans var í látunum þar, en hef ekki komist hjá því að hlýða á og sjá tilþrifin á netinu enda þessi fótafimi leikmaður á árum áður og nú tungulipri lýsandi, umfjöllunarefni allra helstu fjölmiðla heims! Háa C-ið sem Gummi náði, eða hvaða tónn sem þetta var, þegar Arnór Ingvi gerði sigurmarkið á lokasekúndunum fer í annála og virðist þegar orðið vinsæll hringitónn!

Blaðamanni hér í Nice, kunningja mínum, fannst þetta skemmtileg tenging: Að lýsandinn heimsfrægi væri eiginmaður Kristbjargar Ingadóttur, afabarns Guðmundssonar, og faðir alnafna gömlu kempunnar. Gummi gæti því hæglega orðið umtalaður hér í Nice og ekki bara vegna lýsingarinnar sem fór eins og eldur í sinu um netheimsbyggðina.

Glæsileg frammistaða

Óhætt er að segja að leikmenn Íslands hafi skráð nöfn sín á spjöld sögunnar með glæsilegri frammistöðu á EM. Þjálfararnir ekki síður vegna þess hvernig þeir hafa púslað saman liðinu síðustu ár.

Verkefni morgundagsins verður vitaskuld erfitt. Eiga menn að þora að leyfa sér bjartsýni? Strákarnir okkar eiga að sjálfsögðu allt að vinna. Englendingarnir verða að vinna; það þætti mikil niðurlæging heima fyrir ef þeir næðu ekki að fella litla Ísland úr keppni.

Áhugamenn um sögurnar sjá líklega fyrir sér að Eiður Smári Guðjohnsen, sú glæsilega kempa sem átti farsælan feril með Chelsea, svo ekki sé meira sagt, og síðar Barcelona, komi í fyrsta sinni við sögu að ráði á mótinu í leiknum á morgun. Að hann komi inn á sem varamaður og skipti sköpum. Skori jafnvel sigurmarkið ... Nei, þarna er ég líklega kominn fram úr mér. Sjáum bara til og njótum.

Á morgun kemur nýr dagur ...

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert