Ísland vann riðilinn

Íslenski landsliðshópurinn sem keppir í Lúxemborg.
Íslenski landsliðshópurinn sem keppir í Lúxemborg. Ljósmynd/Blaksamband Íslands

Kvennalandsliðið í blaki fagnaði 3:0 sigri á Norður-Írlandi nú rétt í þessu og hefur þar með unnið riðilinn og tryggt sér sæti í næstu umferð undankeppni fyrir HM 2018. 

Landsliðið sýndi frábæran leik gegn N.-Írlandi í dag. Ísland vann leikinn 3:0 (25:8, 25:13 og 25:6). Daniele Capriotti breytti byrjunarliðsuppstillingu fyrir leikinn í dag og hvíldi að mestu þær Jónu Guðlaugu og Elísabetu.

Byrjunarliðið í leiknum var skipað Kristínu í uppspilinu og Ásthildi í díó, á köntunum voru Karen Björg og María Rún og á miðjunni Hugrún Óskarsdóttir og Fjóla Rut Svavarsdóttir. Frelsingjar voru sem fyrr Steinunn Helga og Birta. 

Allir leikmenn fengu að spreyta sig í leiknum en stigahæsti leikmaðurinn var Hugrún Óskarsdóttir með 12 stig.

Ísland endar mótið með þremur sigrum og öruggu sæti í 2. umferð undankeppni fyrir HM2018 en liðið mun einnig taka þátt í úrslitum EM smáþjóða sem fram fer á næsta ári í Lúxemborg. Það lítur því út fyrir mjög viðburðaríkt ár á næsta ári hjá Blaksambandi Íslands þar sem bæði A-landsliðin taka þátt í 2. umferð undankeppni HM, Smáþjóðaleikunum og úrslitum EM smáþjóða. 

Landsliðstímabilinu er lokið í bili en stelpurnar koma heim til Íslands á morgun, mánudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert