Höfundur ummæla Kára stundar falsanir

Kári Árnason er ekki sá fyrsti sem svara þarf fyrir …
Kári Árnason er ekki sá fyrsti sem svara þarf fyrir falsaða tilvitnun. AFP

Ummæli sem Kári Árnason, leikmaður íslenska landsliðsins, átti að hafa viðhaft um Englendinga eftir leik liðanna á mánudag koma úr smiðju bresks grínara sem stundar það að búa til falsaðar tilvitnanir.

Frétt mbl.is: Kári sagði þetta ekki

Átti Kári m.a. að hafa sagt að ensku leikmennirnir hefðu vanvirt Íslendinga í leiknum og að Harry Kane, framherji Englands, hefði spurt dómara leiksins hvort Englendingar dyttu úr keppninni, töpuðu þeir leiknum.

Upprunalega tístið með ummælum Kára

Höfundur ummælanna er Breti frá Wiganborg, sem gengur undir nafninu George Weahs Cousin, eða „frændi George Weah“, á Twitter, en hann kom fram undir réttu nafni á samskiptamiðlinum áður en hann sneri sér að gerð falsaðra tilvitnana.

Nafnið er vísun í Ali Dia, sem oft er talinn versti leikmaður sem leikið hefur í ensku úrvalsdeildinni, en hann laug því að George Weah, einn besti knattspyrnumaður heims á sínum tíma, væri frændi sinn og fékk þar með samning hjá Southampton. 

Ummæli úr smiðju „frænda George Weah“ hafa áður dreifst víða og er Kári ekki sá eini sem þurft hefur að svara fyrir uppátæki hans. Í síðasta mánuði þurfti Mark Noble, miðjumaður West Ham, að taka fram að fyrrverandi samherji sinn, Carlos Tevez, hefði ekki mölvað framrúðu Range Rover-bifreiðar samherja þeirra, eftir að ummæli sem áttu að koma frá Noble dreifðust um netheima.

Þá greindu breskir miðlar frá því að leitað hefði verið logandi ljósi að ummælum sem áttu að koma frá Gary Neville, sem þá var knattspyrnustjóri Valencia. Átti Neville að hafa sagt, í hlutverki sérfræðings, að hann gæti ekki horfst í augu við fjölskyldu sína framar, tapaði hann 7-0 fyrir Barcelona, en tilvitnunin var búin til eftir að Valencia tapaði 7-0 fyrir Barcelona undir hans stjórn.

Breski miðillinn Independent birti á vefsíðu sinni atriði sem sönnuðu að þessi ummæli væru fölsuð, sem þeir höfðu lagt töluverða vinnu í. Hafði miðillinn m.a. komist að því að myndin af Neville væri frá 18. ágúst 2014 og að hann hefði ekki birst með þetta bindi við þennan jakka síðan.

Auk þessara falsana hafa fjölmargar tilvitnanir „frændans“ ratað víða á samskiptamiðlum. Það virðst vera nóg að setja orð innan gæsalappa við hliðina á mynd af frægum einstaklingi til að fólk gleypi við gríninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert