Nýliði í vörn Frakklands gegn Íslandi?

Samuel Umtiti mun kannski kljást við íslensku sóknarmennina á sunnudaginn.
Samuel Umtiti mun kannski kljást við íslensku sóknarmennina á sunnudaginn. AFP

Hinn 22 ára gamli Samuel Umtiti, sem Barcelona vinnur nú að að kaupa frá Lyon, er talinn mjög líklegur til að spila sinn fyrsta A-landsleik í hjarta varnar Frakka þegar þeir mæta Íslendingum á sunnudag í átta liða úrslitum EM karla í knattspyrnu.

Frakkar verða án tveggja leikmanna sem verið hafa byrjunarliðsmenn hjá Didier Deschamps á mótinu til þessa. N'Golo Kanté, miðjumaður Leicester, og miðvörðurinn Adil Rami taka báðir út leikbann vegna gulra spjalda. Umtiti er talinn líklegastur til að taka stöðu Ramis við hlið Laurent Koscielny, en Elaquim Mangala, miðvörður Manchester City, kemur einnig til greina. Franskir fjölmiðlar eru á því að Mangala hafi verið ósannfærandi og Umtiti sé framar í goggunarröðinni.

Hélt hreinu gegn Kolbeini

Eins og fyrr segir ætlar Barcelona sér að kaupa Umtiti, sem sagður er kosta rúmlega 4,1 milljarð króna. Hann á að baki fimm leiktíðir í frönsku 1. deildinni og mætti Kolbeini Sigþórssyni í leik gegn Nantes í mars, sem Lyon vann 2:0.

Frakkar eiga marga sterka miðverði en óheppnin elti þá í aðdraganda mótsins. Raphael Varane úr Real Madrid og Jérémy Mathieu úr Barcelona urðu báðir að hætta við mótið vegna meiðsla. Umtiti var einmitt kallaður til vegna meiðsla Mathieu, rétt áður en lokahópur Frakka var tilkynntur um síðustu mánaðamót. Þá þótti Mamadou Sakho úr Liverpool ekki koma til greina eftir að hafa verið settur í bann vegna lyfjaprófs, þó að það bann rynni út fyrir síðustu mánaðamót. Kurt Zouma úr Chelsea og fleiri til komu ekki til greina vegna meiðsla. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert