Bolt nálgast sitt fyrra form

Usain Bolt fagnar sigri sínum í 200 metra hlaupi í …
Usain Bolt fagnar sigri sínum í 200 metra hlaupi í London í gær. AFP

Jamaíski spretthlauparinn Usain Bolt undirbýr sig nú af miklum móð fyrir Ólympíuleikana sem hefjast í Ríó í Brasilíu 5. ágúst næstkomandi. Bolt meiddist fyrr í þessum mánuði og um tíma var óttast að hann gæti ekki tekið þátt í Ólympíuleikunum af fullum krafti. Bolt róaði hins vegar taugar stuðningsmanna sinna á afmælismóti í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikvanginum í London í gær.  

Bolt sigraði í 200 metra hlaupi á mótinu sem er hluti af Demantamótaröðinni, en hann hljóp á tímanum 19,89 sekúndum. Þessi sexfaldi ólympíumeistari á titil, bar sigur úr býtum bæði í 100 og 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og í London árið 2012 og freistar þess að verja sigra sína í Ríó í ágúst. 

Bandaríski spretthlauparinn LaShawn Merrit mun veita Bolt harða keppni þar í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum, en Merrit hefur hlaupið á besta tímanum í ár í þeirri grein þegar hann hljóp á 19,74 sekúndum. Heimsmet Bolt í 200 metra hlaupi sem hann setti árið 2009 er 19,19 sekúndur.

„Ég er að nálgast mitt fyrra form, en er þó ekki í mínu besta formi. Ég byrjaði hlaupið ekki nógu vel, en ég kláraði hlaupið án þess að finna fyrir meiðslum og ég er virkilega ánægður með það,“ sagði Bolt í samtali við BBC eftir hlaupið í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert